Hollenska félagið Ajax hefur fundið arftaka Steven Bergwijn sem er á leið til Al Ittihad í Sádi-Arabíu, en Ganamaðurinn Kamaldeen Sulemana kemur til félagsins frá Southampton á Englandi.
Ajax samþykkti í kvöld að selja Bergwijn til Al Ittihad fyrir 25 milljónir evra en hann er´a leið í læknisskoðun hjá félaginu.
Í staðinn kemur Sulemana frá Southampton. Sulemana er 22 ára vængmaður og spilaði tvö tímabil með enska liðinu, eitt í úrvalsdeildinni og þá hjálpaði hann liðinu að komast aftur upp í deild þeirra bestu á síðustu leiktíð. Hann hefur ekkert komið við sögu á þessu tímabili.
Sulemana hóf atvinnumannaferil sinn hjá danska félaginu Nordsjælland, en var seldur til Rennes eftir frábæra frammistöðu í Danmörku.
Ajax náði samkomulagi við Southampton í kvöld um að fá Sulemana á láni út tímabilið með möguleika á að kaupa hann fyrir rúmar 15 milljónir punda.
Sulemana á 19 A-landsleiki fyrir Gana.
Athugasemdir