Það ætlaði allt um koll að keyra eftir að stjörnum prýtt lið Inter Miami tapaði gegn Seattle Sounders í úrslitum Leagues Cup sem er keppni sem félög í bandarísku og mexíkósku deildinni taka þátt í.
Leiknum lauk með öruggum 3-0 sigri Seattle en það var kýtingur milli manna eftir leikinn. Luis Suarez gerði sig sekann um að hrækja á starfsmann Seattle liðsins.
Sá heitir Gene Ramirez en fjölmiðlamenn ræddu við hann eftir leikinn og spurðu hann út í atvikið.
„Ég hélt að hann ætlaði að bíta mig," sagði Ramirez á léttu nótunum sem féll vel í kramið hjá fjölmiðlamönnum.
Úrúgvæinn hefur oft látið kappið bera fegurðina ofurliði, en hann var dæmdur í átta leikja bann eftir að rannsókn enska knattspyrnusambandsins komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði beitt varnarmann Manchester United, Patrice Evra, kynþáttaníði.
Tveimur árum síðar fékk Suárez tíu leikja bann eftir að hafa bitið Branislav Ivanovic í úrvalsdeildarleik gegn Chelsea. Á HM í Brasilíu 2014 endurtók Suárez leikinn, þar sem hann beit Giorgio Chiellini í öxlina í viðureign Úrúgvæ og Ítalíu.
Athugasemdir