Arnar Gunnlaugsson landsliðsþjálfari var spurður út í stöðu KR í Bestu-deildinni eftir blaðamannafund í gær. Landsliðsþjálfarinn segir bera sterkar tengingar til liðsins enda fyrrum leikmaður og aðstoðarþjálfari.
Hvað þýðir það fyrir íslenskan fótbolta ef KR myndi falla?
„Ég ætla ekki að hugsa þá hugsun til enda. Það væri rosalegt. Þetta er félag sem ég var bæði leikmaður hjá og aðstoðarþjálfari. Ég ber sterkar tengingar til þeirra.“
„Þetta sýnir hvað fótboltinn er ótrúleg skepna, magnað að fylgjast með þessari íþrótt stundum. Að sjá hvað getur gerst og ekki gerst, þetta er búið að vera mjög áhugavert sumar. Mörg ævintýri gerst og mikið af sögum. Ég á von á því að spennan haldi áfram fram á lokadag.“
Stoltur af sínum fyrrum lærisveinum
Arnar hætti sem þjálfari Víkings snemma árs og tók við landsliðinu. Arftaki hans, Sölvi Geir Ottesen, er nálægt því að hampa Íslandsmeistaratitlinum á sínu fyrsta tímabili sem aðalþjálfari.
„Ég er rosalega stoltur af Sölva og hans teymi. Þetta er búið að vera erfitt tímabil, erfitt undirbúningstímabil og öll meiðslin hjá lykilpóstum. Staðreyndin er sú að það er búið að vinna gríðarlega gott starf, strúktúrinn er flottur innan sem utan vallar. Hópurinn er sá sem sá um að fara með þetta yfir línuna.“
„Hóparnir hjá öðrum liðum voru ekki nægilega sterkir til að takast við þau áföll að missa lykilmenn. Það er það sem hópar snúast um, að taka við áföllum þegar lykilleikmenn hverfa ekki þegar rulluspilarar hverfa. Þar stendur Víkingur fremst að borðinu.“