Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 04. desember 2018 21:43
Ívan Guðjón Baldursson
England: Wilson og Fraser hetjurnar í Bournemouth
Mynd: Getty Images
Þremur leikjum var að ljúka í ensku úrvalsdeildinni þar sem Bournemouth, Brighton og West Ham unnu á heimavelli.

Callum Wilson og Ryan Fraser afgreiddu Huddersfield á fyrstu 22 mínútum leiksins. Fraser lagði fyrra markið upp fyrir Wilson á fimmtu mínútu og endurlaunaði Wilson greiðann skömmu síðar.

Gestirnir frá Huddersfield sóttu í sig veðrið og voru mun betri en heimamenn út leikinn en tókst þó ekki að jafna. Terence Kongolo gerði eina mark þeirra eftir mikinn skallatennis í vítateignum.

Brighton fór vel af stað gegn Crystal Palace og var gamli markarefurinn Glenn Murray búinn að skora úr vítaspyrnu eftir aðeins 24 mínútur.

Fjórum mínútum síðar fékk Shane Duffy rautt spjald fyrir að skalla í Patrick van Aanholt í hita leiksins. Chris Hughton var snöggur að bregðast við með taktískri skiptingu og skoraði varamaðurinn Leon Balogun nokkrum sekúndum eftir innkomuna, með sinni fyrstu snertingu.

Murray meiddist skömmu síðar og kom Florin Andone inná í hans stað og skoraði hann þriðja markið rétt fyrir leikhlé.

Crystal Palace lagði allt í sóknarleikinn en vörn heimamanna hélt gríðarlega vel og komust gestirnir ekki í gegn þar til Luka Milivojevic skoraði úr vítaspyrnu undir lokin. Tíu leikmenn Brighton höfðu þannig betur gegn Crystal Palace.

West Ham byrjaði ekki vel gegn Cardiff því Marko Arnautovic fékk dæmda vítaspyrnu á sig og þurfti að fara meiddur af velli skömmu síðar.

Vítabaninn Lukasz Fabianski hélt uppteknum hætti og varði vítaspyrnuna og var staðan markalaus eftir dapran fyrri hálfleik.

Lucas Perez kom inn í stað Arnautovic í fyrri hálfleik og skoraði hann tvö mörk skömmu eftir leikhlé. Michail Antonio fullkomnaði sigur Hamranna með þriðja markinu og náðu gestirnir ekki að minnka muninn fyrr en í uppbótartíma, þegar varamaðurinn Josh Murphy skoraði.

Bournemouth er sjö stigum frá Meistaradeildarsæti eftir sigurinn og er Brighton komið í tíunda sæti deildarinnar. West Ham er í tólfta sæti, þremur stigum eftir Brighton, og svo koma Crystal Palace, Cardiff og Huddersfield rétt fyrir ofan fallsvæðið.

Bournemouth 2 - 1 Huddersfield
1-0 Callum Wilson ('5)
2-0 Ryan Fraser ('22)
2-1 Terence Kongolo ('38)

Brighton 3 - 1 Crystal Palace
1-0 Glenn Murray ('24, víti)
2-0 Leon Balogun ('31)
3-0 Florin Andone ('45)
3-1 Luka Milivojevic ('81, víti)
Rautt spjald: Shane Duffy, Brighton ('28)

West Ham 3 - 1 Cardiff
1-0 Lucas Perez ('49)
2-0 Lucas Perez ('54)
3-0 Michail Antonio ('61)
3-1 Josh Murphy ('95)
Athugasemdir
banner
banner