
„Ég hélt að umboðsmaðurinn minn væri að djóka þegar hann hringdi, en hann vissi ekkert að ég héldi með West Ham," sagði landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir þegar hún ræddi við Fótbolta.net á dögunum.
Dagný var að klára sitt fjórða tímabil með enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham, en hún gekk í raðir félagsins árið 2021.
Dagný var að klára sitt fjórða tímabil með enska úrvalsdeildarfélaginu West Ham, en hún gekk í raðir félagsins árið 2021.
Hún eignaðist sitt annað barn í febrúar á síðasta ári og sneri aftur á yfirstandandi tímabili.
„Ég er ógeðslega þakklát að hafa endað þarna. Við fjölskyldan erum búin að vera ógeðslega ánægð. Þetta er orðið jafnmikið heimili og á Íslandi," sagði Dagný sem hefur verið ánægð með tíma sinn hjá West Ham fyrir kannski utan síðasta tímabil.
„Síðasta tímabil er örugglega það erfiðasta sem ég hef upplifað á mínum ferli. Það kemur nýr þjálfari þegar ég er ólétt. Okkar skap fór ekki endilega saman. Ég vissi að West Ham vildi halda mér en ég veit ekki enn í dag hvort hún vildi hafa mig í liðinu. Þegar ég skrifa undir samning við þá eftir að ég eignast yngri son minn þá vildi maðurinn minn að við myndum fara eitthvað annað. Hann sagði að ég ætti ekki séns þarna. Ég hafði trú á að ég myndi sannfæra hana. Eldri sonur minn hefur átt heima í London meira en helminginn af lífi sínu og ég hugsaði að það væri auðveldast fyrir alla að vera áfram."
„Þetta var mjög erfitt tímabil. Hún tekur ákvörðun um að ég verði ekki áfram fyrirliði. Ég var ekki hissa, ég hefði örugglega verið meira hissa ef ég hefði verið fyrirliði áfram. Hún er bara þjálfari sem vill svolítið að leikmenn segi 'já og amen'. Ég er ekki þannig," segir Dagný.
Hvað gerist í framhaldinu?
Hún var mögulega að spila sitt síðasta tímabil fyrir félagið þar sem samningur hennar er að renna út. Hún fékk samningstilboð frá West Ham, en það verður að teljast líklegast að hún fari annað þar sem Rehanne Skinner er enn þjálfari liðsins.
„Ég veit að ég ætti að vera búin að spila meira, en spila ekki eins mikið og ég vildi. Þó ég byrjaði og spilaði vel, þó tók hún mig samt úr liðinu. Ég átti aldrei séns þó ég kannski trúði því," sagði Dagný. „Við áttum erfitt tímabil saman."
Hún segist ekki hafa fengið stuðning frá þjálfara liðsins eftir að hún eignaðist yngri son sinn, en aðrir hjá félaginu hafi sýnt henni stuðning.
Dagný hefur verið orðuð við heimkomu.
„Þetta er undir mér komið, hvað við fjölskyldan ætlum að gera. Ætlum við að vera áfram úti? Ég er með +1 samning á borðinu frá West Ham. Það er hvort ég segi já eða nei. Ég get farið til annarra landa en þá er það hvort ég geti lagt það á fjölskylduna og börnin. Eða ætlum við heim? Ég sá mig aldrei enda ferilinn á Íslandi. Ég veit ekki neitt og ég er skipulagsfrík. Það er er erfitt að vita ekki neitt, en ég ákvað að anda," segir Dagný.
Eru íslensku félögin ekkert að liggja í þér?
„Það eina sem ég sé er frá ykkur fjölmiðlamönnum. Ég sé það ekki einu sinni, stelpurnar eru alltaf að sýna mér þetta og spyrja mig. 'Ertu að fara í Breiðablik eða Þrótt?' Ég hef ekki heyrt í neinum. Ég fékk skilaboð frá Völsurum í febrúar. Ég er tveggja barna móðir og er með son minn í skóla. Ég var ekki að fara að stökkva til Íslands í smá tíma til að fara út aftur. Að mörgu leyti snýst þetta um eldri son minn því yngri sonur minn er ekki einu sinni byrjaður á leikskóla. Ég er að reyna að hugsa hvað er honum fyrir bestu."
Allt hlaðvarpið má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.
Athugasemdir