Víkingurinn Óttar Magnús Karlsson verður áfram á Ítalíu á komandi tímabili en hann er sagður á leið til Renate sem spilar í C-deildinni þar í landi.
Óttar er 28 ára gamall framherji sem eyddi síðustu leiktíð hjá SPAL í C-deildinni.
SPAL mun ekki taka þátt á næsta tímabili vegna fjárhagserfiðleika og hefur því samningi Óttars verið rift. Hann var ekki lengi að finna sér nýtt heimili en hefur samþykkt tveggja ára samning hjá Renate sem hefur spilað síðustu ár í C-deildinni.
Notiziariocalcio segir að hann hafi þegar skrifað undir samninginn hjá Renate sem er staðsett á Lombardí-svæðinu á Ítalíu. Liðið hafnaði í 5. sæti A-riðils á síðustu leiktíð.
Framherjinn hefur spilað á Ítalíu síðustu fimm ár, með stuttu stoppi hjá Oakland Roots í Bandaríkjunum.
Í febrúar var greint frá því í útvarpsþætti Fótbolta.net að Breiðablik og Víkingur hefðu mikinn áhuga á að fá hann, en Óttar ætlar að halda áfram í atvinnumennsku, næstu tvö árin í það minnsta.
Athugasemdir