Newcastle á eftir Scalvini - Barcelona snýr sér aftur að Díaz - Tottenham vill belgískan miðvörð
   lau 05. júlí 2025 12:05
Brynjar Ingi Erluson
Falleg og sorgleg stund er Jota og bróðir hans voru bornir til grafar
Útför Andre Silva og Diogo Jota fór fram í dag
Útför Andre Silva og Diogo Jota fór fram í dag
Mynd: Porto
Mynd: EPA
Diogo Jota, leikmaður Liverpool, og bróðir hans Andre Silva voru bornir til grafar í Gondomar, heimabæ þeirra í Portúgal í dag.

Diogo og Andre létu lífið í hræðilegu bílslysi aðfaranótt fimmtudags á Spáni en Liverpool-maðurinn var á leið aftur til Englands að hefja undirbúningstímabilið með Liverpool.

Allur fótboltaheimurinn lamaðist þegar fréttirnar bárust, enda mjög óvanalegt að leikmaður af þessari stærðargráðu deyr í blóma lífsins en tveimur vikum áður hafði hann gifst æskuástinni og spenntur að fara meiðslalaus inn í nýtt tímabil.

Útför þeirra bræðra fór fram í Gondomar í Portúgal og var Liverpool-hópurinn mættur til þess að syrgja vin og liðsfélaga. Einnig voru liðsfélagar Jota úr portúgalska landsliðinu viðstaddir ásamt mörgum öðrum þekktum nöfnum úr fótboltaheiminum.

Andy Robertson, sem var mjög náinn Jota, og Virgil van Dijk, fyrirliði Liverpool, báru sérstakan rauðan krans sem var með númerum bræðranna, 20 og 30. Stærstur hluti Liverpool-hópsins var mættur ásamt mörgum fyrrum leikmönnum félagsins á borð við Jordan Henderson, sem var fyrirliði liðsins til átta ára, og James Milner.

Ruben Neves, leikmaður Al-Hilal, og jafnframt besti vinur Jota, var kistuberi en aðeins 13 tímum áður spilaði hann með liði sínu í 8-liða úrslitum HM félagsliða sem er haldið í Bandaríkjunum.

Útförin, sem stóð yfir í rúman klukkutíma, var afar sorgleg en á sama tíma falleg.

Íbúar Igreja de Matriz fengu einnig tækifæri til að syrgja þá bræður en hátalarakerfi var komið fyrir og beint hljóðstreymi ómaði yfir bæinn.

Hvíl í friði, Andre og Diogo.




Athugasemdir
banner