„Sáttur við stigið úr því sem komið var“ sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir 2-2 jafntefli gegn Breiðabliki í Mosfellsbænum í kvöld.
Lestu um leikinn: Afturelding 2 - 2 Breiðablik
„Það að lenda 2-0 undir gegn Íslandsmeisturunum og ná að snúa því við sýnir trúna og liðsheildina í hópnum og mér fannst það vera mjög öflugt. Þetta er fjórði leikurinn í röð í deildinni sem við lendum í því að lenda undir sem er náttúrulega ekki ætlunin og við þurfum að bæta það. Í öllum leikjunum komum við til baka, jöfnum, og í þremur af þeim erum við að ná í stig þannig það sýnir hvað það er mikil trú í hópnum.“
Afturelding leitar mikið út í breiddina í sínum sóknarleik sem gekk ekki nægilega vel í fyrri hálfleik en það breyttist þó í seinni. Hverju breyttu þeir í hálfleik?
„Við skerptum á ákveðnum hlutum, já, og það var eitt af því sem við fórum yfir og reyndum að gera. Markið náttúrulega, annað markið, kemur þannig. Við komumst upp hérna vinstra megin, frábær fyrirgjöf og frábært spil sem endar á því að Bennsi skorar. Mér fannst mörkin bæði mjög góð og bara hörku öflug frammistaða hjá strákunum í dag.“
Sumarglugginn nálgast óðfluga og aðspurður hvort Afturelding ætli sér að sækja Ísak Snæ Þorvaldsson segir hann:
„Ísak er frábær leikmaður, Mosfellingur og Aftureldingarmaður í húð og hár, þannig að ef að hann hefur áhuga á að koma hingað þá standa dyrnar alltaf opnar fyrir hann, það er engin spurning. Við viljum hafa þessa öflugu Mosfellinga sem flesta hérna heima hjá okkur. Ef þeir eru að hugsa sér til hreyfings og að koma heim þá held ég að það sé bara einn staður sem þeir eiga að vera á og það er hérna í 270.“
Nánar er rætt við Magnús má í spilaranum hér að ofan.