Fram og Valur unnu bæði góða sigra á útivelli í 14. umferð Bestu deildar karla í dag.
Framarar unnu ÍA, 1-0, á ELKEM-vellinum á Akranesi. Þessi helgi á að vera mjög gleðileg á Akranesi enda írskir dagar og þar tekur gleðin öll völd.
Það voru hins vegar gestirnir sem voru með yfirburði í fyrri hálfleiknum.
Freyr Sigurðsson átti fyrsta dauðafærið á 6. mínútu er hann skallaði fyrirgjöf Fred yfir markið. Þetta var viðvörun sem Skagamenn tóku ekki alvarlega því tveimur mínútum síðar kom sigurmarkið.
Haraldur Einar Ásgrímsson átti hornspyrnu á Kennie Chopart sem skallaði boltann á Vuk Oskar Dimitrijevic sem var í engum vandræðum með að skora.
Framarar voru með öll völd og hefðu hæglega getað bætt við fleiri mörkum fyrir hálfleik en voru eflaust svekktir með að fara bara með eins marks forystu inn í hálfleikinn.
Það var meiri ákefð í heimamönnum í þeim síðari en þeir voru heppnir að fá ekki á sig vítaspyrnu snemma leik þegar Hlynur Sævar Jónsson togaði í Vuk í teignum en ekkert dæmt.
Í kjölfarið þurfti Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, að biðja um skiptingu vegna meiðsla í kálfa og inn kom Guðni Kristjánsson.
Skagamenn fengu urmul af færum síðasta hálftímann. Viktor Freyr Sigurðsson varði með löppunum frá nafna sínum Viktori Jónssyni og svo átti Erik Tobias Sandberg skalla í slá eftir hornspyrnu.
Áfram héldu Skagamenn að skapa sér færi en Framarar héldu út og fögnuðu 1-0 sigri. Fyrsta tap Lárusar Orra Sigurðssonar sem þjálfari ÍA.
Örugglega mikið svekkelsi fyrir Skagamenn sem geta þó huggað sig við það að Quarashi mun stíga á svið á Lopapeysunni í kvöld ásamt fleiri góðu tónlistarfólki.
Framarar fara upp í 4. sætið með 22 stig en ÍA er áfram á botninum með 12 stig.
Valur upp fyrir Blika og Pedersen nálgast metið
Valur vann Vestra, 2-0, á Kerecis-vellinum á Ísafirði.
Tryggvi Hrafn Haraldsson kom Valsmönnum á bragðið á 18. mínútu leiksins eftir góða sókn.
Sjö mínútum síðar var Patrick Pedersen nálægt því að skora annað markið en skot hans fyrir utan teig hafnaði í stönginni.
Valsmenn betri í þeim fyrri og byrjuðu seinni hálfleikinn sterkt, en varamaðurinn Lúkas Logi Heimisson kom sér í dauðafæri en setti boltann rétt framhjá markinu.
Heimamenn byrjuðu aðeins að finna taktinn eftir því sem leið á seinni hálfleikinn fengu skell í andlitið á 77. mínútu er Guy Smit braut á Pedersen í teignum.
Daninn steig sjálfur á punktinn og skoraði 129. mark sitt í efstu deild og er nú aðeins tveimur mörkum frá því að jafna markamet Tryggva Guðmundssonar í efstu deild.
Vestri náði ekki að koma til baka eftir þetta og eru Valsmenn komnir upp í 2. sætið með 27 stig, eins og Breiðablik, en með betri markatölu. Vestri er áfram í 6. sæti með 19 stig.
ÍA 0 - 1 Fram
0-1 Vuk Oskar Dimitrijevic ('8 )
Lestu um leikinn
Vestri 0 - 2 Valur
0-1 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('18 )
0-2 Patrick Pedersen ('78 , víti)
Lestu um leikinn
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Víkingur R. | 14 | 9 | 3 | 2 | 26 - 14 | +12 | 30 |
2. Valur | 14 | 8 | 3 | 3 | 37 - 19 | +18 | 27 |
3. Breiðablik | 14 | 8 | 3 | 3 | 26 - 20 | +6 | 27 |
4. Fram | 14 | 7 | 1 | 6 | 22 - 18 | +4 | 22 |
5. Stjarnan | 13 | 6 | 2 | 5 | 24 - 24 | 0 | 20 |
6. Vestri | 14 | 6 | 1 | 7 | 13 - 13 | 0 | 19 |
7. Afturelding | 14 | 5 | 3 | 6 | 17 - 19 | -2 | 18 |
8. KR | 13 | 4 | 4 | 5 | 34 - 34 | 0 | 16 |
9. ÍBV | 14 | 4 | 3 | 7 | 13 - 21 | -8 | 15 |
10. FH | 13 | 4 | 2 | 7 | 19 - 19 | 0 | 14 |
11. KA | 13 | 3 | 3 | 7 | 12 - 25 | -13 | 12 |
12. ÍA | 14 | 4 | 0 | 10 | 15 - 32 | -17 | 12 |
Athugasemdir