Unglingalandsliðsmaðurinn Sölvi Snær Ásgeirsson er genginn til liðs við austurríska félagið LASK á láni frá Grindavík en hann mun leika þar næsta árið.
Sölvi Snær er 17 ára gamall miðvörður og með efnilegustu varnarmönnum landsins.
Hann á að baki 12 landsleiki með yngri landsliðum Íslands og skorað 2 mörk.
Knattspyrnudeild Grindavíkur hefur náð samkomulagi um að lána hann til LASK til tólf mánaða og fær austurríska félagið forkaupsrétt á honum á meðan lánsdvölinni stendur.
Hann framlengdi um leið samning sinn við Grindavík til 2027.
Á þessu tímabili hefur hann komið við sögu í 10 leikjum í deild- og Bikar með Grindvíkingum og staðið sig vel, en nú heldur hann á vit ævintýranna og er Sölvi gríðarlega spenntur fyrir komandi tímum.
„Þetta er stórt tækifæri fyrir mig og ég er mjög spenntur fyrir því að reyna fyrir mér í sterku atvinnumannaumhverfi hjá liði eins og LASK. Það er ekki auðvelt að yfirgefa Grindavík á þessum tímapunkti. Ég er afar þakklátur fyrir þann stuðning sem ég hef fengið frá félaginu í gegnum allt þetta ferli,“ sagði Sölvi Snær.
Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, segist spenntur fyrir því að fylgjast með Sölva vaxa og dafna í Austurríki.
„Við erum gríðarlega stolt af Sölva. Þetta lán er mikil viðurkenning fyrir leikmanninn. Við fylgjumst spennt með næsta kafla í hans ferli og vitum að hann mun standa sig vel,“ sagði formaðurinn um Sölva.
LASK er með stærstu félögum Austurríkis. Það er fastagestur í Evrópukeppni og mætti meðal annars Víkingi í Sambandsdeild Evrópu á síðustu leiktíð.
Athugasemdir