Það fóru þrír leikir fram í 2. deild karla í kvöld þar sem Ægir frá Þorlákshöfn hélt toppsætinu með góðum sigri gegn Víði sem kíkti í heimsókn frá Garði.
Ægismenn voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og fengu nokkur góð færi áður en Bjarki Rúnar Jónínuson tók forystuna skömmu fyrir leikhlé.
Garðsmenn voru sterkari aðilinn í síðari hálfleik en þeim tókst ekki að jafna metin. Þess í stað innsiglaði Bilal Kamal sigur Ægis í uppbótartímanum. Lokatölur 2-0 og er Ægir með þriggja stiga forystu á toppinum. Víðir situr eftir í fallsæti, með 8 stig eftir 11 umferðir.
Þróttur Vogum er í öðru sæti eftir markalaust jafntefli í toppbaráttuslag gegn Gróttu. Vogamenn eiga 23 stig, þremur stigum meira heldur en Grótta og Haukar sem fylgja fast á eftir.
Haukar sigruðu þægilega gegn Kára í kvöld, þar sem Hafnfirðingar skoruðu fjögur mörk gegn einu til að landa stigunum.
Kári er með 9 stig eftir 11 umferðir, einu stigi fyrir ofan fallsvæðið.
Ægir 2 - 0 Víðir
1-0 Bjarki Rúnar Jónínuson ('43)
2-0 Bilal Kamal ('93)
Þróttur V. 0 - 0 Grótta
Haukar 4 - 1 Kári
Markaskorara vantar
Athugasemdir