
„Þetta er hinn klassíski sex stiga leikur. Þannig þetta var bara kærkomið, að halda loksins hreinu og ná þrem stigum," sagði Gunnar Már Guðmundsson þjálfari Fjölnis eftir 1-0 sigur gegn Leikni í kvöld.
Lestu um leikinn: Leiknir R. 0 - 1 Fjölnir
„Mér fannst við gera leikinn óþarflega erfiðann, en mér fannst við bara góðir. Við fengum færi og fengum góð færi í fyrri hálfleik, og eitt allavega í seinni hálfleik þannig við hefðum getað klárað leikinn. Við gerðum okkur svolítið erfitt fyrir og það var eins og við vorum manni færri í seinni hálfleik, frekar en að við vorum manni fleirri," segir Gunnar.
Eins og Gunnar segir voru Fjölnismenn manni fleirri mest allann seinni hálfleikinn eftir að Jón Arnar Sigurðsson fékk sitt annað gula spjald. Þeir spiluðu hinsvegar ekki þannig og voru í raun lakara liðið manni fleirri.
„Ætli þetta sé ekki bara eðlilegt hjá liði með lítið sjálfstraust að vera hræddir og byrja að verjast of neðarlega. Mér fannst við allavega leggja vinnuna inn og það skilaði sér," segir Gunnar.
Þessi sigur þýðir það að Fjölnir jafnar Leikni að stigum í deildinni og eru stutt frá því að koma sér úr fallsæti.
„Nú er það bara lykilatriði að tengja saman sigra. Einn til tveir sigrar í þessari deild gera helling. Það er bara klárt að við þurfum að einbeita okkur að næsta leik og klára það," segir Gunnar.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.