Martinelli til Sádi? - Brentford neitar að lækka sig - Alonso tilbúinn að selja - Elanga á leið til Newcastle
   fös 04. júlí 2025 21:41
Ívan Guðjón Baldursson
Lengjudeildin: Fjölnir reif sig af botninum - Fjögur rauð í uppbótartíma
Lengjudeildin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það fóru tveir leikir fram í Lengjudeildinni í kvöld þar sem Fjölnir reif sig af botninum með langþráðum sigri á meðan ÍR bætti stöðu sína á toppi deildarinnar.

Leiknir R. 0 - 1 Fjölnir
0-1 Bjarni Þór Hafstein ('10, víti)
Rautt spjald: Jón Arnar Sigurðsson, Leiknir ('52)

Lestu um leikinn: Leiknir R. 0 - 1 Fjölnir

Leikurinn fór fjörlega af stað í Breiðholtinu þar sem Leiknismenn komust í gott færi á upphafsmínútunum en Fjölnismenn svöruðu skömmu síðar með marki úr vítaspyrnu eftir klaufalegt brot Ólafs Íshólms Ólafssonar á milli stanganna. Bjarni Þór Hafstein skoraði með góðri vítaspyrnu þar sem Ólafur skutlaði sér í rétt horn en náði ekki til boltans.

Bæði lið komust í góðar stöður í fyrri hálfleiknum án þess að skapa neitt sérstaklega góð færi en Fjölnismenn voru sterkari aðilinn og verðskulduðu að vera með eins marks forystu þegar flautað var til leikhlés.

Jón Arnar Sigurðsson fékk að líta seinna gula spjaldið sitt í liði heimamanna í upphafi síðari hálfleiks og komst Dagur Ingi Hammer Gunnarsson í dauðafæri einn gegn markmanni en skaut langt framhjá markinu.

Tíu Leiknismenn voru mun betri eftir að þeir misstu mann af velli og áttu Dagur Ingi skalla í stöng, en boltinn rataði ekki í netið.

Fjölnir fékk einnig færi til að tvöfalda forystuna en Leiknismenn voru sterkari og hreinlega óheppnir að jafna ekki metin einum leikmanni færri.

Lokatölur 0-1 fyrir Fjölni sem rífur sig úr botnsætinu með þessum sigri. Fjölnir og Leiknir eru núna jöfn á stigum, með 9 stig eftir 11 umferðir. Þau eru tveimur stigum fyrir ofan botnlið Selfoss.

Fylkir 1 - 2 ÍR
1-0 Emil Ásmundsson ('50)
1-1 Víðir Freyr Ívarsson ('53)
1-2 Bergvin Fannar Helgason ('83 , víti)
Rautt spjald: Ragnar Bragi Sveinsson, Fylkir ('97)

Lestu um leikinn: Fylkir 1 - 2 ÍR

Á sama tíma tók Fylkir á móti toppliði ÍR og var staðan markalaus í leikhlé í Árbænum, þrátt fyrir yfirburði heimamanna sem áttu meðal annars skot í slá

Fylkismenn voru óheppnir að fara inn í hálfleikinn án þess að hafa tekið forystuna en Emil Ásmundsson lagaði það með marki í upphafi síðari hálfleiks. Hann skoraði eftir frábæra sendingu fyrir markið frá Guðmunda Tyrfingssyni.

ÍR-ingar vöknuðu til lífsins við þetta og fengu dauðafæri áður en Víðir Freyr Ívarsson skoraði snyrtilegt jöfnunarmark á 53. mínútu.

Hinn afar líflegi Theodór Ingi Óskarsson komst nokkrum sinnum nálægt því að skora eða leggja upp og Pablo Aguilera Simon sömuleiðis en meira skoruðu Fylkismenn ekki.

ÍR-ingar gerðu sig hættulega á lokakafla leiksins. Fyrst bjargaði Fylkir á marklínu og svo fékk ÍR dæmda vítaspyrnu á 82. mínútu, þegar Þorkell Víkingsson varð fyrir því óláni að fá bolta í hönd innan vítateigs aðeins mínútu eftir innkomu sína af bekknum.

Bergvin Fannar Helgason skoraði örugglega úr vítaspyrnunni og virtist allur kraftinn farinn úr Fylkismönnum, sem höfðu verið sterkara liðið nánast allan leikinn fram að þessu.

Í uppbótartíma fór allt úr böndunum þar sem þrjú rauð spjöld voru gefin á varamannabekkina áður en Ragnar Bragi Sveinsson fyrirliði Fylkis var rekinn af velli með beint rautt spjald.

Ívan Óli Santos í liðsstjórn ÍR og Árni Freyr Guðnason þjálfari Fylkis fengu báðir að líta rauða spjaldið ásamt Emil Ásmundssyni sem var skipt af velli á 54. mínútu.

Ragnar Bragi fékk að líta rauða spjaldið fyrir pirringsbrot á 97. mínútu. Hann óð aftan í leikmann ÍR sem var að skýla boltanum meðan tíminn var að renna út.

Lokatölur urðu því 1-2 fyrir ÍR sem endurheimtir toppsæti Lengjudeildarinnar með þessum sigri. ÍR er þar með 25 stig eftir 11 umferðir, tveimur stigum meira heldur en Njarðvík sem situr í öðru sæti.

Fylkir situr eftir með 10 stig, einu stigi fyrir ofan fallsæti.
Athugasemdir
banner