Cristiano Ronaldo skoraði sitt 900. mark á ferlinum í kvöld en hann kom Portúgal í 2-0 gegn Króatíu en tilfinningarnar brutust út þegar hann fagnaði markinu.
Diogo Dalot kom Portúgal yfir snemma leiks en Ronaldo bætti öðru markinu við þegar hann setti boltann í netið eftir hárnákvæma sendingu Nuno Mendes inn á teiginn.
Þetta var 900. mark hans á ferlinum en hann sagði á dögunum að hann stefndi á það að skora þúsund mörk áður en hann leggur skóna á hilluna.
Hann hefur skorað 131 mark fyrir landslið Portúgals en Lionel Messi er næst markahæstur með 109 mörk fyrir Argentínu. Þá hefur Messi skorað 838 mörk á ferlinum fyrir félagslið og landslið.
Staðan er 2-1 fyrir Portúgal þegar tæpur hálftími er til loka venjulegs leiktíma.
Mörk Ronaldo fyrir félagslið og landslið:
Real Madrid - 450
Manchester United - 145
Portugal - 131
Juventus - 101
Al-Nassr - 68
Sporting CP – 5