Hollendingurinn Gini Wijnaldum spilaði sinn síðasta leik fyrir AS Roma í ítalska boltanum á sunnudaginn en þá kom hann inn á sem varamaður gegn Spezia á Ólympíuleikvanginum í Róm.
Wijnaldum kom til Roma fyrir tímabilið á láni frá PSG og voru stuðningsmenn liðsins mjög spenntir fyrir honum í fyrstu. Hann fékk frábærar móttökur þegar hann mætti en honum tókst einungis að koma inn á í einum leik áður en hann meiddist illa. Hann braut bein á sköflungi og var frá í marga mánuði.
Wijnaldum var frá í um hálft ár en sneri aftur í liðið í febrúar mánuði. Hann var lengi að koma sér í gang og í raun og veru náði hann engum takti síðari hluta tímabils. Það sem var slæmt er að hann hreinlega virtist ekki leggja sig 100% fram í nokkrum leikjum liðsins. Það kunna eldheitir stuðningsmenn Roma ekki að meta og fara að snúast gegn þér ef það er málið.
Hann fékk það óþvegið eftir úrslitaleik Evrópudeildarinnar í síðustu viku þar sem Roma tapaði gegn Sevilla í vítaspyrnukeppni. Hann kom inn á fyrir Paulo Dybala þegar um klukkutími var búinn af leiknum en hann gerði lítið sem ekkert í leik sem fór alla leið í vítaspyrnukeppni. Hann virkaði áhugalaus og oft bara á einhverju skokki í leik sem gjörsamlega allt var undir.
Eftir leikinn setti Wijnaldum inn færslu á Twitter sem má sjá hér fyrir neðan. Þar skrifar hann: „Erfitt tap, við gáfum allt sem við áttum en þetta var ekki okkar kvöld.” Þá varð fjandinn laus hjá stuðningsmönnunum sem fóru að svara honum og segja að hann hafi akkúrat verið eini leikmaður liðsins sem gaf ekki allt.
„Þínir liðsfélagar gáfu allt, þú gafst ekkert. Við studdum þig í gegnum erfið meiðsli og biðum í sex mánuði eftir að fá þig aftur á völlinn. Þú ættir að skammast sín þín fyrir frammistöðu þína í úrslitaleiknum, spilaðir án hjarta og sálar. Ég vona að þú náðir að njóta þetta árs frí sem þú fékkst í Róm,” sagði einn stuðningsmaður.
„Þú sjálfur gafst ekkert, við studdum þig áður en þú lentir í Róm og á hverjum einasta degi þegar þú varst í endurhæfingu. Þú komst inn á í úrslitaleiknum og var á skokkinu. Ég vona þín vegna að þú sért ekki ánægður með sjálfan þig.”
Andrea Belotti, sóknarmaður Roma, er gott dæmi um það ef þú leggur þig fram í treyju liðsins, þó að hlutirnir séu ekki að ganga fyrir þig, þá færð þú virðingu stuðningsmanna. Belotti kom til liðsins frá Torino og átti að raða inn mörkunum. Hann skoraði hins vegar ekki eitt einasta deildarmark í allan vetur, sem er ótrúlegt miðað við hans tölfræði í þessari deild. En hann gerði eitt sem Wijnaldum gerði ekki, hann barðist og djöflaðist endalaust. Hann spilaði nokkrum sinnum meiddur og sagði Jose Mourinho að hann væri hetja í sínum augum. Ef þú leggur þig ekki fram í treyju Roma þá færðu menn á móti þér og það gerðist við Wijnaldum.
Undirritaður var staddur á leik Roma og Spezia í fyrradag þar sem Roma vann dramatískan sigur og náði sæti í Evrópudeildinni á ný. Þar baulaði allur leikvangurinn, eða rúmlega 60 þúsund manns, þegar nafn Wijnaldum var lesið upp og ekki voru móttökurnar betri þegar hann kom inn á sem varamaður í síðari hálfleiknum.
Eftir leik kvöddu leikmenn liðsins stuðningsmennina þar sem þetta var síðasti leikur tímabilsins. Þeir löbbuðu hring um völlinn og þar sást að Wijnaldum leið ekkert alltof vel þegar leikmenn mættu til Curva Sud en þar sitja hörðustu stuðningsmennirnir. Roma hefur ákveðið að kaupa hann ekki frá PSG.