PSG leiðir kapphlaupið um Salah - Tuchel á blaði Man Utd - Newcastle líklegt til að reyna aftur við Guehi
banner
   fös 06. september 2024 20:38
Brynjar Ingi Erluson
Fyrsti sigur Íslands í Þjóðadeildinni
Icelandair
Orri Steinn skoraði fyrra markið með skallamarki
Orri Steinn skoraði fyrra markið með skallamarki
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Dagur fagnar öðru marki Íslands
Jón Dagur fagnar öðru marki Íslands
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland 2 - 0 Svartfjallaland
1-0 Orri Steinn Óskarsson ('39 )
2-0 Jón Dagur Þorsteinsson ('58 )
Lestu um leikinn

Íslenska karlalandsliðið fer vel af stað í Þjóðadeild karla en liðið vann góðan 2-0 sigur á Svartfjallalandi á Laugardalsvellinum í kvöld. Bæði mörk Íslands komu eftir hornspyrnu.

Strákarnir okkar voru örlítið seinir í gang í leiknum og var skipulagið ekki alveg nógu skýrt.

Hurð skall nærri hælum eftir tólf mínútna leik. Markvörður Svartfellinga fleygði löngum bolta fram völlinn og fór Logi Tómasson í spretthlaup við Milutin Osmajic og ætlaði að hreinsa að hreinsa með vinstri en hitti ekki boltann. Osmajic kom sér í ágætis færi í kjölfarið en setti boltann í hliðarnetið.

Mesta hætta Íslands kom eftir föst leikatriði og kom eina mark fyrri hálfleiksins eftir slíkt. Jóhann Berg Guðmundsson átti hornspyrnu inn á nærsvæðið og þar kom Orri Steinn Óskarsson á ferðinni og stangaði honum fast undir slánna og í netið.

Snemma í síðari hálfleiknum var vítaspyrna dæmd eftir að Novica Erakovic virtist verja boltann með hendinni. Dómarinn, með aðstoð VAR, tók hins vegar dóminn til baka.

Nokkrum mínútum síðar féll Orri í teignum en ekkert dæmt og áfram með smjörið.

Það dró aftur til tíðinda á 58. mínútu. Svipuð uppskrift og í fyrra markinu en Gylfi Þór Sigurðsson tók hornspyrnu á nærsvæðið sem Jón Dagur Þorsteinsson stangði í fjærhornið.

Á dögunum greindi KSÍ frá ráðningu á fyrrum landsliðsmanninum Sölva Geir Ottesen. Hann gegnir meðal annars því hlutverki að bæta föstu leikatriðin og er það strax farið að bera árangur.

Hákon Rafn Valdimarsson hafði ekkert svakalega mikið að gera í markinu en þegar liðið þurfti á honum að halda þá var hann á tánum. Hann varði tvö mjög góð færi frá Svartfellingum með nokkurra mínútna millibili.

Willum Þór Willumsson hefði getað gert endanlega út um leikinn á lokamínútunum. Fyrst átti hann skot sem fór yfir markið og seinna kom hann sér í dauðafæri, en Milan Mijatovic varði meistaralega.

Íslenska liðið sigldi sigrinum örugglega heim. Góð byrjun í Þjóðadeildinni og fyrsti sigurinn sömuleiðis síðan Þjóðadeildin var sett á laggirnar. Á mánudag mætir Íslands sterku liði Tyrklands, en sá leikur fer fram ytra.
Athugasemdir
banner