Barcelona í baráttuna um Guehi - Man Utd reynir aftur við Baleba á næsta ári - Muniz fær nýjan samning
   lau 06. september 2025 20:50
Ívan Guðjón Baldursson
Undankeppni HM: Írar náðu dramatísku jöfnunarmarki
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Þremur síðustu leikjum kvöldsins er lokið í forkeppni Evrópuþjóða fyrir HM þar sem lærisveinar Heimis Hallgrímssonar í írska landsliðinu fengu eitt stig á heimavelli.

Írland tók á móti Ungverjalandi og komust gestirnir í tveggja marka forystu í fyrri hálfleik. Barnabas Varga skoraði strax á annarri mínútu eftir sendingu frá Callum Styles sem virkaði afar heppileg, en varnarmenn Íra misstu einbeitinguna og skildu Varga eftir lausan.

Kantmaðurinn Roland Sallai tvöfaldaði forystuna með frábærum skalla eftir góða hornspyrnu frá Dominik Szoboszlai og leiddu Ungverjar með tveimur mörkum í hálfleik.

Evan Ferguson minnkaði muninn í upphafi síðari hálfleiks eftir mikinn atgang í vítateignum í kjölfar aukaspyrnu og fékk markaskorarinn Sallai að líta beint rautt spjald skömmu síðar. Hann fékk rautt fyrir að fara með takkana aftan í Dara O'Shea miðvörð Íra, sem leikur með Ipswich Town.

Ellefu Írar sóttu stíft gegn tíu Ungverjum þar sem þeir áttu gríðarlegt magn fyrirgjafa og sköpuðu oft hættulegar stöður. Þeim tókst þó ekki að koma boltanum framhjá Denes Dibusz sem átti flotta frammistöðu á milli stanganna.

Þegar Ungverjar virtust vera að landa sigrinum tókst Írum loksins að finna jöfnunarmarkið í uppbótartíma. Þar var Adam Idah, sem kom inn af bekknum, á ferðinni, en hann var keyptur til Swansea City undir lok félagaskiptagluggans í sumar eftir eitt og hálft ár hjá Celtic.

Idah skoraði með skalla af stuttu færi eftir frábæra fyrirgjöf frá Ryan Manning, kantmanni Southampton. Lokatölur urðu því 2-2 og byrja báðar þjóðir því undankeppnina á jafntefli. Portúgal og Armenía eru einnig með í undanriðlinum.

Austurríki tók á sama tíma á móti Kýpur og lenti í miklum vandræðum en tókst þó að landa sigri að lokum. Marcel Sabitzer skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu snemma í síðari hálfleik.

Kýpverjar voru gríðarlega sprækir og sköpuðu mikinn usla í Austurríki. Þeir voru óheppnir að skora ekki og tapa þessum leik. Gestirnir voru sterkari aðilinn bæði í fyrri og seinni hálfleik en töpuðu útaf vítaspyrnunni.

Hún var gefin eftir afar óheppilega tæklingu innan vítateigs þar sem varnarmaður Kýpurs reyndi að fara fyrir boltann en endaði á að traðka óvart á skotmanninum eftir að skotið fór af stað. Boltinn var á leið framhjá en vítaspyrna var dæmd.

Sjáðu atvikið

Lokatölur 1-0 fyrir Austurríki sem er með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir í forkeppninni. Kýpur er með þrjú stig eftir fjóra leiki.

Rúmenía, Bosnía og San Marínó eru einnig í riðlinum. Bosnía rúllaði yfir tíu leikmenn San Marínó í kvöld.

39 ára gamall Edin Dzeko skoraði tvennu í sex marka sigri á útivelli.

Bosnía trónir á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir. Útlit er fyrir að Bosnía muni berjast við Austurríki um toppsætið. Rúmenar eru búnir að tapa naumlega fyrir bæði Bosníu og Austurríki hingað til í undankeppninni.

Írland 2 - 2 Ungverjaland
0-1 Barnabas Varga ('2 )
0-2 Roland Sallai ('15 )
1-2 Evan Ferguson ('49 )
2-2 Adam Idah ('93)
Rautt spjald: Roland Sallai, Hungary ('52)

Austurríki 1 - 0 Kýpur
1-0 Marcel Sabitzer ('54 , víti)

San Marínó 0 - 6 Bosnía
0-1 Benjamin Tahirovic ('21 )
0-2 Edin Dzeko ('70 )
0-3 Edin Dzeko ('72 )
0-4 Samed Bazdar ('81 )
0-5 Kerim Alajbegovic ('85 )
0-6 Nihad Mujakic ('90 )
Rautt spjald: Alessandro Golinucci, San Marino ('16)
Athugasemdir
banner