Sænski framherjinn Alexander Isak kom ekkert við sögu í 2-2 jafntefli Svía gegn Slóvenum í undankeppni HM í gær, en Jon Dahl Tomasson, þjálfari landsliðsins, sagði áhættuna of mikla.
Isak neitaði að æfa og spila með Newcastle á undirbúningstímabilinu og byrjun leiktíðar til að þvinga fram sölu til Liverpool.
Hann fékk sínu framgengt undir lok gluggans og flaug strax í landsliðsverkefnið með Svíum.
Framherjinn var á bekknum gegn Slóvenum en fékk ekki eina mínútu.
„Hann hefur bara tekið þrjár æfingar með liðinu, ekkert undirbúningstímabil og ekki spilað neitt. Áhættan á að spila honum var allt of mikil,“ sagði Tomasson við Viaplay.
Svíar mæta Kósóvó á mánudag og er góður möguleiki á að hann fái mínútur í þeim leik.
„Vonandi getum við notað hann til að breyta leiknum,“ sagði Tomasson.
Athugasemdir