
„Þetta er bara geggjuð byrjun hjá okkur. Frábært að hafa náð að skapa svona mikið á meðan þeir skapa ekki neitt, það er bara frábært.“ sagði Elías Rafn Ólafsson, markvörður Íslands, eftir 5-0 sigur á Aserbaídsjan í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 5 - 0 Aserbaídsjan
„Það er erfitt að búa til góð færi gegn liði sem liggur svona neðarlega. Þetta sýnir mikið þolinmæði í liðinu og það var gott að ná markinu inn í fyrri hálfleik. Svo eftir það opnuðust flóðgáttir, gates open.“
Elías talar um að þetta hafi verið þolinmæðisverk á boltanum í dag og að einbeitingin hafi verið á réttum stað hjá Íslandi.
„Við sýndum það í dag að vorum þolinmóðir þegar við héldum í boltann. Við vorum ekki að einbeita okkur að því hvað þeir væru að gera, við einbeittum okkur að okkur sjálfum.“
Hvernig er það sem markmaður að spila svona leiki þegar það er nánast ekkert að gera nema senda til hliðar.
„Maður fer náttúrulega bara inn í þennan leik og reynir að spila þennan leik eins og alla aðra leiki. Maður verður svo bara að vera tilbúinn þegar það kemur eitthvað. Það er bara svoleiðis.“
Elías var mjög sáttur með heildarframmistöðu Íslenska liðsins í kvöld.
„Þetta var bara frábær leikur í heild. Við gáfum þeim ekki neitt og sköpuðum þessi færi sem við sköpuðum og skoruðum þessi mörk sem við skoruðum, bara geggjuð byrjun.“
Viðtalið við Elías má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir