Man Utd vill fá Watkins - Helmingslíkur á að Ten Hag verði áfram - PSG hefur áhuga á Mateta
banner
   mið 07. febrúar 2024 12:46
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hætti við að koma í ÍA á síðustu stundu
Við undirskrift hjá Slovan Bratislava árið 2018.
Við undirskrift hjá Slovan Bratislava árið 2018.
Mynd: Slovan Bratislava
ÍA átti von á því að fá króatískan reynslubolta í varnarlínuna en ekkert varð úr því að hann kæmi til félagsins. Samkomulag var í höfn um að hann kæmi um mánaðamótin en hann fékk annað tilboð sem hann tók.

„Skagamenn voru orðaðir við 35 ára gamlan króatískan hafsent sem búið var að ganga frá, en hann hætti svo bara við daginn fyrir flugið. Skagamenn eru á byrjunarreit hvað það varðar," sagði Sverrir Mar Smárason í lýsingu á leik ÍA og FH á ÍATV um helgina.

Leikmaðurinn sem um ræðir heitir Marin Ljubicic og lék hann með öllum yngri landsliðum Króatíu á sínum tíma. Hann varð í tvígang slóvenskur meistari þegar hann lék með Slovan Bratislava á árunum 2018-2020. Hann lék síðast með NK Dugopolje í næst efstu deild í Króatíu.

Fótbolti.net hafði samband við Eggert Hjelm Herbertsson sem er formaður knattspyrnudeildar ÍA.

„Við vorum búnir að ná samkomulagi við hann. Hann sagði frá því að hann ætlaði sér að verða 'sportchef' og njósnari eftir að ferlinum lyki. Planið var að hann kæmi 1. febrúar og allt gert og græjað. Kvöldið áður sendi hann okkur skilaboð að hann hefði fengið starf í Slóveníu sem hann langaði í, hann tók því starfi og kom ekki. Leiðinlegt að svona gerist, en hann hefur metið að þetta væri tækifæri sem hann vildi grípa og ekkert við því að segja," sagði Eggert.

Skagamenn ætla sér að bæta við tveimur mönnum áður en tímabilið byrjar. „Við ætlum að fá einn inn á miðjuna og einn hafsent."

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net ætla Skagamenn að landa fyrrum landsliðsmanninum Rúnari Má Sigurjónssyni sem er mættur á Akranes. Hann er þar í endurhæfingu eftir að hafa farið í aðgerð í síðasta mánuði.

ÍA vann Lengjudeildina í fyrra og verður því í Bestu deildinni á komandi tímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner