mán 07. júní 2021 23:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Gagnrýnir KSÍ fyrir að hringja ekki - „Sýnið að þið hafið áhuga"
Amanda Andradóttir.
Amanda Andradóttir.
Mynd: Vålerenga
Rikki hér fyrir miðju. Í vinnunni.
Rikki hér fyrir miðju. Í vinnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Amanda í unglingalandsleik með Íslandi.
Amanda í unglingalandsleik með Íslandi.
Mynd: Getty Images
„Samkvæmt því sem ég hef heyrt, þá hefur KSÍ ekki haft samband fyrir þetta verkefni hvorki út af U19 eða A-landsliðinu," sagði útvarpsmaðurinn og íþróttafréttamaðurinn Ríkharð Óskar Guðnason í hlaðvarpsþættinum The Mike Show.

Hann var þar að tala um Amöndu Andradóttur, leikmann Vålerenga í Noregi.

Margir hafa kallað eftir að Amanda, sem er sautján ára gömul, verði valin í A-landslið Íslands. Hún er leikmaður Vålerenga í Noregi og er dóttir Andra Sigþórssonar. Hún er uppalin í Val og Víkingi en fór í atvinnumennsku þegar hún var 15 ára.

Amanda hefur farið vel af stað með norska meistaraliðinu Vålerenga og lagði upp mark í sigurleik á dögunum.

Hún hefur spilað fyrir yngri landslið Íslands en var á dögunum valin í yngri landslið Noregs í fyrsta skipti. Móðir hennar er norsk. Hún var valin í U19 landslið Noregs en það var ekki hægt að velja hana í U19 landslið Íslands að þessu sinni þar sem hún hefði þurft að fara í sóttkví við komuna til landsins.

Ísland er í hættu á að missa af þessum bráðefnilega og hæfileikaríka leikmanni en landsliðsframtíð hennar mun í fyrsta lagi ráðast í september þegar næstu keppnisleikir fara fram.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna, sagði í samtali við Fótbolta.net að hann hefði rætt við hana í vetur en ekkert fyrir þetta verkefni. Er KSÍ að sofa á verðinum?

„KSÍ tékkaði ekki einu sinni hvort hún væri með mótefni eða bólusett og myndi sleppa við sóttkví, hvort hún gæti mögulega tekið þátt í verkefnunum. Þeir gefa sér það. Það eru engin samskipti og hafa ekki verið nein samskipti á milli KSÍ og Amöndu," sagði Ríkharð.

„Það er fáránlegt því Amanda er svona svipað efnileg og Cristiano Ronaldo var þegar hann var 18 ára," sagði Sigurður Gísli Snorrason, sem spilar með Þrótti Vogum.

„Hún spilaði sextán ára í efstu deild í Danmörku sem atvinnumaður. Ef þetta virðist vera áhuginn hjá KSÍ og ef þetta virðast vera samskiptin - miðað við sem ég hef frá áreiðanlegum heimildum... það eru engin samskipti. Hvað gerist þá? Eftir hverju er verið að bíða? Af hverju er ekki verið að setja hana í A-landsliðið? Ef við missum af henni, þá væri það hræðilegt því við erum ekki að fara að sjá svona hæfileika í langan tíma," sagði Ríkharð.

„Byrjið á að hafa samband og sýnið að þið hafið áhuga," sagði Ríkharð.

Orri Rafn Sigurðarson, lýsandi á Viaplay, er vel tengdur inn í mál Amöndu og hann segir á Twitter að Norðmenn horfi á hana sem eina af lykilmönnum sínum í framtíðinni.

Noregur er í 12. sæti á heimslista FIFA og Ísland í 17. sæti.

Sjá einnig:
Útskýrir af hverju Amanda var ekki valin


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner