mán 07. desember 2020 13:30
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Mín skoðun 
Valtýr um ábyrgð varaformanns KSÍ: Þetta er búið, bless!
Jón Þór Hauksson og Borghildur Sigurðardóttir.
Jón Þór Hauksson og Borghildur Sigurðardóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölmiðlamaðurinn reynslumikli Valtýr Björn Valtýsson ræddi um stöðu landsliðsþjálfara kvenna, Jóns Þórs Haukssonar, í þætti sínum Mín skoðun í dag. Þar var meðal annars rætt um áfengisneysluna eftir að kvennalandsliðið tryggði sér sæti á EM.

Starf Jóns Þórs hangir á bláþræði en KSÍ fundar með honum í dag eða á morgun. Hann var undir áhrifum áfengis og þótti hafa farið yfir strikið í samræðum við leikmenn sem sumar voru í uppnámi.

„Það eru svo mörg atriði í þessu máli. Þau eru í búbblu og eru að fara í flug daginn eftir. Það er greinilega ákveðið að veita áfengi. Það er gert. Þarna eru tvær sautján ára stelpur í hópnum og alls fjórar stelpur sem mega ekki fara inn í vínbúð á Íslandi," segir Valtýr um áfengisdrykkjuna í ferðinni.

„Ég sá frétt á Stöð 2 í gær þar sem var verið að tilgreina aðila sem gætu tekið við. Ian Jeffs var nefndur sem dæmi, hann er aðstoðarþjálfari. Mér finnst hann alveg 'out', bara gleymdu því. Hann er hlutaðeigandi í þessu máli."

Valtýr talar um að það starfslið KSÍ þurfi að sýna ábyrgð og talar þar meðal annars um Borghildi Sigurðardóttur, varaformann KSÍ og formann landsliðsnefndar, sem var á svæðinu.

„Hún er varaformaður KSÍ. Ábyrgð þessara aðila og ábyrgð varaformanns KSÍ er bara þónokkuð mikil. Mér finnst þetta lið, sorrí, þetta er búið... bless! Þessir ellefu aðilar eru ábyrgir fyrir þessum hóp, og þarna er varaformaður KSÍ!," segir Valýr Björn.

Borghildur vildi ekki tjá sig
Borghildur Sigurðardóttir vildi ekki tjá sig um atvikin í Ungverjalandi í samtali við fréttastofu Vísis.

„Almennt séð er KSÍ ekki að kaupa áfengi í landsliðsferðum eða eitthvað þess háttar og almennt er engin áfengisneysla í ferðum. En í þessu tilfelli var keyptur hóflegur skammtur fyrir þá sem höfðu til þess aldur. Svo var því lokað fljótlega," sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við Vísi.
Athugasemdir
banner
banner
banner