mið 08. febrúar 2023 16:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Framkvæmdir á Þróttarasvæðinu - Spilað í Þróttheimum
Framkvæmdir á næstunni.
Framkvæmdir á næstunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valbjarnarvöllur árið 2014.
Valbjarnarvöllur árið 2014.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Það á að ráðast á framkvæmdir á Þróttarasvæðinu í Laugardal á næstunni og ljóst að bæði karla og kvennalið félagsins munu spila annars staðar en á Þróttaravellinum í upphafi komandi tímabils.

Það verður þó leitað langt yfir skammt því leikið verður þar sem Valbjarnarvöllur var.

„Það er búið að setja tvo nýja gervigrasvelli þar sem Valbjarnarsvæðið var áður. Þar verður leikstaður okkar, að minnsta kosti til að byrja með. Það á að taka aðalvöllinn okkar, AVIS völlinn, það er búið að bjóða út jarðvegsvinnu á honum. Það hefjast væntanlega framkvæmdir um leið og veður skánar. Hann verður aldrei tilbúinn fyrr en í fyrsta lagi um mitt sumar. Þangað til munum við spila á þessu nýja svæði. Þar er fullkominn gervigrasvöllur, keppnisvöllur," sagði Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, við Fótbolta.net í dag.

Verður sett upp bráðabirgðastúka á nýja svæðinu?

„Það eru ýmsar hugmyndir, hvort að það verði bráðabirgðastúka eða eitthvað varanlegt sem verður tengt við eitthvað húsnæði sem verður sett upp seinna - menn eru að skoða möguleikana. Þetta veltur allt á því hjá okkur í íþróttafélögunum hvað sveitarfélögin eru tilbúin að gera fyrir okkur."

Leikstaður Þróttar í sumar er á heimasíðu KSÍ skráður sem Þróttheimar. „Það er nýja svæðið á því sem hét áður Valbjarnarvöllur. Það eru tveir vellir á honum, annar heitir Hagavöllur og hinn Sundavöllur. Upphaflega er Þróttur stofnaður vestur í bæ og það tengist Högunum. Svo var völlurinn í Sæviðarsundi. Það var strætó sem gekk á milli sem hét Hagar-Sund. Það er verið að tengja þessa tvo velli sögunni. Svæðið í heild sinni heitir Þróttheimar," sagði Kristján.

Kvennalið Þróttar endaði í 4. sæti Bestu deildarinnar síðasta sumar og karlaliðið endaði í 2. sæti 2. deildar og verður því í Lengjudeildinni á komandi tímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner