Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 10. júní 2023 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Rúnar búinn að heyra í Arsenal - „Hef ákveðna hugmynd"
Rúnar Alex Rúnarsson.
Rúnar Alex Rúnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aaron Ramsdale, aðalmarkvörður Arsenal.
Aaron Ramsdale, aðalmarkvörður Arsenal.
Mynd: Getty Images
Landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson snýr aftur til enska úrvalsdeildarfélagsins Arsenal í sumar eftir lánsdvöl hjá Alanyaspor í Tyrklandi.

Rúnar Alex er með samning við Arsenal sem gildir út næstu leiktíð en það er óvíst hvort hann verði hjá félaginu á næstu leiktíð.

Hann var spurður út í áform sín í viðtali við Fótbolta.net fyrir landsliðsæfingu í gær. Er hann búinn að vera í sambandi við menn frá Arsenal?

„Já, ég er búinn að því. Ég hef ákveðna hugmynd um hvernig þetta verður, en ég fæ ekki nein lokasvör fyrr en eftir landsleikina í fyrsta lagi," segir Rúnar Alex.

„Það gæti dregist fram í júlí eða ágúst, en vonandi fæ ég svör sem fyrst. Ég einbeiti mér að þessum landsleikjum fyrst og spila vonandi vel hérna."

Horfði á flestalla leiki
Arsenal átti fínasta tímabil og var lengi vel á toppnum í ensku úrvalsdeildinni, en endaði að lokum í öðru sæti á eftir Manchester City. „Ég horfði á flestalla leiki og fylgdist mjög vel með. Eftir á að hyggja er mjög leiðinlegt að hafa ekki náð að klára þetta, en fyrir fram hefðu menn tekið annað sæti og Meistaradeildarsæti eftir margra ára fjarveru. Það er mjög gott og vonandi hægt að byggja ofan á þetta."

Aaron Ramsdale var aðalmarkvörður og stóð sig vel, fékk kannski ekki það lof sem hann á skilið. „Hann átti mjög gott tímabil og er bara hrikalega góður markvörður," segir Rúnar.

„Hann er góður karakter og það kemur ekkert á óvart að hann hafi átt þetta gott tímabil. Ég fékk að æfa með þeim allt undirbúningstímabilið þangað til ég fer til Tyrklands og maður sá hvers megnugur hann er. Ég býst við því sama á komandi árum."

Matt Turner var varamarkvörður Arsenal á síðasta tímabili en Rúnar getur líklega í besta falli vonast til að veita honum samkeppni ef hann verður áfram hjá Lundúnafélaginu og fer ekki neitt annað í sumar. „Ég er með mínar hugmyndir en ég ætla ekki að ræða það opinberlega. Þetta er á milli mín, fjölskyldunnar og félagsins."

Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir neðan.
Rúnar Alex: Hefði ekki verið auðvelt fyrir mig eða pabba
Athugasemdir
banner
banner
banner