Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 11. maí 2015 11:00
Arnar Daði Arnarsson
Pepsi-deildin
Arnar Grétars: Markmið að skora nokkur mörk gegn KR
Arnþór Ari ekki með í kvöld
Arnar Grétarssson þjálfari Breiðabliks.
Arnar Grétarssson þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnþór Ari byrjar ekki í kvöld.
Arnþór Ari byrjar ekki í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það verður alvöru slagur á Kópavogsvelli í kvöld þegar Breiðablik og KR mætast í 2. umferð Pepsi-deildar karla. Flautað verður til leiks klukkan 19:15 og verður leiknum textalýst beint hér á Fótbolta.net.

Arnar Grétarsson þjálfari Blika snýr aftur á Kópavogsvöllinn eftir þónokkur ár erlendis, nú sem þjálfari. Hann segir að sínir menn verði að vera agaðir og skipulagðir í leiknum í kvöld.

„Við þurfum að vera rólegir á boltanum og skapa fleiri færi en í síðasta leik gegn Fylki. Það er nú þannig að vellirnir í dag eru ekkert til að hrópa húrra yfir. Við þurfum samt sem áður að reyna spila meiri fótbolta, skipta milli kanta og fá fleiri færi," sagði Arnar sem segir markmiðin skýr fyrir leikinn í kvöld.

„Markmiðið í dag er að sækja þrjú stig og skora nokkur mörk á KR-ingana."

„Menn verða að þora að halda boltanum niðri og spila fótbolta. Það er styrkleiki okkar."

Arnar býst við dýrvitlausum KR-ingum í leiknum í kvöld. Blikarnir verði því að vera tilbúnir frá fyrstu mínútu.

„Þeir hafa ekki fengið það sem þeir hafa átt skilið í Meistarar-meistaranna og í fyrstu umferðinni í deildinni. Þeir hljóta ætla að réttlæta sinn hlut og fá eitthvað útúr þessum leik. Að sama skapi ætlum við að reyna taka öll stigin sem í boði eru."

Eru í leit að styrkingu
Arnþór Ari fór af velli í hálfleik í fyrstu umferðinni vegna meiðsla. Arnar á ekki von á því að Arnþór spili í kvöld.

„Hann byrjar að minnsta kosti ekki. Ég geri ráð fyrir því að hann verði klár fyrir leikinn gegn Keflavík. Við lentum ekki í miklum meiðslum fyrir Íslandsmótið. Síðan meiðist Oliver rétt fyrir byrjun Íslandsmótsins og svo lendir Arnþór Ari í því að fá högg á lærið eftir fimm mínútur í fyrsta leik. Nú þurfa aðrir menn að stíga upp."

Blikarnir gætu bætt við sig áður en félagsskiptaglugginn lokar. Það gangi þó hægt að finna réttu mennina.

„Það verður að koma í ljós. Það hefur gengið erfiðlega. Við viljum ekki hlaupa að einhverju sem við erum ekki örugg með. Við verðum í staðin að vinna ennþá betur í að leita af réttu mönnunum og vera tilbúnir þegar glugginn opnar aftur í júlí. Við erum að skoða þessa hluti og vonandi gengur eitthvað upp. Ef ekki, þá er ekkert við því að gera," sagði Arnar Grétarsson þjálfari Breiðabliks að lokum.

Leikir kvöldsins
19:15 Leiknir R.-ÍA (Leiknisvöllur)
19:15 Breiðablik-KR (Kópavogsvöllur)
19:15 Fjölnir-Fylkir (Fjölnisvöllur)
Athugasemdir
banner
banner