Varnarmaðurinn Lisandro Martínez æfir með argentínska landsliðinu í þessari viku en er hins vegar ekki í hópnum sem mun mæta Angóla á föstudag.
Martínez hefur verið frá vegna meiðsla síðan í febrúar en í síðasta mánuði var greint frá því að hann væri byrjaður að æfa með Manchester United.
Man Utd er að binda vonir við það að hann verði klár eftir landsleikjagluggann en hefur samþykkt að leyfa honum að æfa með argentínska landsliðinu til að komast í enn betra form.
Hann var auðvitað ekki valinn í landsliðið en United ákvað að rétta skrefið væri að leyfa honum að æfa með Argentínumönnum og mun hann hafa sérstakan frammistöðuþjálfara United sér við hlið.
Benjamin Sesko, framherji United, mun ekki spila með slóvenska landsliðinu gegn Kósóvó og Svíþjóð í undankeppni HM í þessum glugga eftir að hafa meiðst gegn Tottenham.
Fyrstu rannsóknir gefa til kynna að meiðslin séu ekki af alvarlegum toga og vonast United til að hann geti verið með liðinu gegn Everton á Old Trafford þann 24. nóvember.
Athugasemdir



