Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mið 13. maí 2020 15:30
Magnús Már Einarsson
Harðar reglur fyrir æfingar á Englandi
Úr leik í ensku úrvalsdeildinni.
Úr leik í ensku úrvalsdeildinni.
Mynd: Getty Images
Stjórar og fyrirliðar liða í ensku úrvalsdeildinni fengu á fundi í dag upplýsingar um það hvernig fyrirkomulagið verður þegar leikmenn mega snúa aftur til æfinga á mánudaginn.

Leikmenn eiga að keyra einir á æfingu og vera þá klæddir í æfingaföt og tilbúnir í æfinguna. Hver og einn leikmaður verður hitamældur við komuna á æfingasvæðið og passað verður upp á að hafa þrjú stæði á milli allra bíla á bílastæðinu.

Enginn matur verður í boði á æfingasvæðinu og leikmenn eiga helst að æfa með grímur eða klúta. Æfingar verða í mesta lagi 75 mínútur og leikmenn munu æfa í fimm manna hópum og virða tveggja metra regluna.

Engar tæklingar verða leyfðar og leikmenn mega ekki hrækja á völlinn. Eftir æfingar verða boltar, keilur, markstangir og aðrir hlutir á æfingunni sótthreinsaðir.

Ekki hefur verið tilkynnt hvenær enska úrvalsdeildin hefst á ný en leikmenn hafa margir hverjir efasemdir og óttast um öryggi sitt. Þeir hafa meðal annars óskað eftir svörum um það hvað gerist ef smit kemur upp í einhverjum leikmannahópi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner