Kólumbíski miðjumaðurinn Richard Rios gæti farið til ítalska félagsins Roma í sumarglugganum.
Rios, sem er 25 ára gamall, var ein af stjörnum Palmeiras á HM félagsliða í sumar og spilaði stóra rullu er kólumbíska landsliðið komst í úrslitaleik Copa America á síðasta ári.
Palmeiras er sagt opið fyrir tilboðum í Rios og eru mörg félög áhugasöm.
Hann hefur verið orðaður við Manchester United og West Ham, en samkvæmt Fabrizio Romano er það Roma sem virðist komið lengst í viðræðum um hann.
Romano segir að Rios sé einnig reiðubúinn að gefa Palmeiras þau 10 prósent sem hann fengi af sölunni til þess að auðvelda viðræðurnar við Roma.
Palmeiras er talið vilja að minnsta kosti 30 milljónir evra til þess að láta hann af hendi en viðræður standa nú yfir og munu gera næstu daga.
Rios, sem hefur einnig leikið með Flamengo, Guarani og Mazatian, hefur spilað 23 A-landsleiki og skorað 2 mörk.
Athugasemdir