Spænska félagið Real Madrid mun þurfa að taka erfiða ákvörðun fyrir byrjun tímabilsins en möguleiki er á því að nýjasta stjarna liðsins, Gonzalo Garcia, verði lánaður frá félaginu.
Gonzalo Garcia skaust fram á sjónvarsviðið á HM félagsliða en hann er markahæsti leikmaður mótsins með fjögur mörk og hefur heillað Xabi Alonso, þjálfara liðsins, algerlega upp úr skónum.
Hann var við það að tryggja sér sæti í hópnum fyrir komandi leiktíð en meiðsli brasilíska framherjans Endrick munu líklega hindra það.
AS segir frá því í dag að Real Madrid var að skoða það að lána Endrick annað og gefa Garcia sénsinn, en bakslag kom í endurkomu Endrick sem verður frá í að minnsta kosti tvo mánuði.
Það er því ekki mikill möguleiki á því að hann verði lánaður í glugganum en Madrídingar munu þurfa að losa sig við að minnsta kosti einn framherja og allt útlit fyrir að það verði Garcia sem verði fórnað.
Endrick, sem er 18 ára gamall, fékk fáar mínútur til að sanna sig undir stjórn Carlo Ancelotti á fyrsta tímabili sínu, en hann hefur kallað eftir stærra hlutverki á komandi leiktíð.
Athugasemdir