Chelsea skoðar Donnarumma - Newcastle endurvekur áhuga sinn á Ekitike - Douglas Luiz til West Ham?
banner
   sun 13. júlí 2025 15:57
Brynjar Ingi Erluson
Heiðruðu minningu Jota með þremur mörkum í Preston
Liverpool vann góðan 3-1 sigur á Preston
Liverpool vann góðan 3-1 sigur á Preston
Mynd: EPA
Englandsmeistarar Liverpool unnu Preston, 3-1, í fyrsta leik undirbúningstímabilsins í dag.

Það var tilfinningaþrungin stund á Deepdale-leikvanginum í Preston, en bæði lið minntust Diogo Jota og Andre Silva sem létu báðir lífið í bílslysi á Spáni í byrjun júlí.

Mínútuþögn fór fram og þá var sungið og klappað fyrir Jota, sem klæddist treyju númer 20 hjá Liverpool, á 20. mínútu leiksins.

Conor Bradley kom LIverpool yfir á 33. mínútu eftir laglegan undirbúning Rio Ngumoha og Federico Chiesa.

Staðan í hálfleik 1-0 og í þeim síðari fengu stuðningsmenn Liverpool að sjá þá Milos Kerkez og Jeremie Frimpong spila sinn fyrsta leik fyrir félagið, en Florian Wirtz, dýrasti leikmaður í sögu deildarinnar, var fjarri góðu gamni.

Darwin Nunez bætti við öðru marki Liverpool er hann nýtti sér slaka sendingu Preston-manna til baka og fagnaði síðan að hætti Jota.

Liam Lindsay minnkaði muninn fyrir Preston með hörkuskalla eftir hornspyrnu á 84. mínútu áður en Cody Gakpo gerði þriðja og síðasta mark Liverpool með skoti af stuttu færi. Hann fagnaði einnig að hætti Jota með því að klappa höndunum saman.

Stefán Teitur Þórðarson var í byrjunarliði Preston og spilaði 70 mínútur.

Liverpool mætir næst AC Milan eftir tæpar tvær vikur á meðan Preston spilar við Getafe.


Athugasemdir
banner
banner