lau 13. ágúst 2022 23:26
Ívan Guðjón Baldursson
Elías Már gerði sigurmark - Hjörtur með sjálfsmark í ótrúlegum leik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images

Elías Már Ómarsson gerði eina mark leiksins er Nimes lagði Rodez, fyrrum félag Árna Vilhjálmssonar, að velli í frönsku B-deildinni.


Elías Már fylgdi vítaspyrnu Yassine Benrahou eftir með marki og er þetta fyrsti sigur Nimes á tímabilinu. Liðið er með fjögur stig eftir þrjár umferðir og aðeins búið að skora tvö mörk.

Hjörtur Hermannsson lék þá allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Pisa í fyrstu umferð í ítölsku B-deildinni en þetta reyndist ekki góður dagur fyrir Hjört og félaga hans í varnarlínunni.

Pisa heimsótti Cittadella og tók forystuna í fyrri hálfleik. Staðan var 1-1 í leikhlé en seinni hálfleikurinn átti eftir að reynast ótrúlegur. Þar gerði Hjörtur sjálfsmark og heimamenn fengu dæmdar þrjár vítaspyrnur sér í hag á þrettán mínútna kafla. Þeir brenndu fyrstu spyrnunni af en skoruðu úr næstu tveimur og voru komnir í þriggja marka forystu.

Það var miklu bætt við eftir allan þennan hasar og náðu gestirnir frá Pisa að minnka muninn niður í eitt mark en lokatölur urðu 4-3 eftir furðulega en stórskemmtilega viðureign í fyrstu umferð.

Nimes 1 - 0 Rodez
1-0 Elías Már Ómarsson ('62)

Cittadella 4 - 3 Pisa
0-1 G. Masucci ('27)
1-1 E. Baldini ('38)
1-1 E. Baldini ('53, misnotað víti)
2-1 E. Baldini ('57, víti)
3-1 Hjörtur Hermannsson ('61, sjálfsmark)
4-1 R. Asencio ('66, víti)
4-2 G. Sibilli ('90)
4-3 S. Canestrelli ('98)

Birkir Bjarnason spilaði síðasta korterið í þægilegum sigri Adana Demirspor gegn Sivasspor og eru Birkir og félagar með sex stig eftir tvær umferðir. Mario Balotelli kom einnig inn af bekknum og var Younes Belhanda meðal markaskorara.

Þá fékk Jón Daði Böðvarsson hálftíma í markalausu jafntefli Bolton gegn Port Vale í ensku C-deildinni. Þar er Bolton með fimm stig eftir þrjár umferðir.

Kolbeinn Birgir Finnsson lék allan leikinn í sigri varaliðs Dortmund sem nældi sér í sinn fyrsta sigur á tímabilinu og er með fjögur stig eftir fjórar umferðir í þýsku C-deildinni.

Adana Demirspor 3 - 0 Sivasspor
1-0 Younes Belhanda ('41)
2-0 Henry Onyekuru ('51)
3-0 Babajide Akintola ('70)

Port Vale 0 - 0 Bolton

Dortmund II 1 - 0 Essen
1-0 B. Fink ('22)

Willum Þór Willumsson átti þá að vera í byrjunarliðinu hjá Go Ahead Eagles í annarri umferð hollensku deildarinnar gegn PSV Eindhoven en hann er frá vegna meiðsla. 

G.A. Eagles missti mann af velli í fyrri hálfleik og skoraði Xavi Simons, fyrrum leikmaður PSG, tvennu og gaf eina stoðsendingu. Luuk de Jong, sem var hjá Barcelona á síðustu leiktíð, komst einnig á blað í leiknum. Ruud van Nistelrooy er þjálfari PSV. Liðsfélagar Willums steinlágu manni færri á heimavelli gegn ógnarsterkum andstæðingum.

Að lokum unnu OFI Crete og PAOK æfingaleiki gegn Episkopi og Volos Í Grikklandi. Guðmundur Þórarinsson er hjá OFI Crete og Sverrir Ingi Ingason hjá PAOK.

OFI Crete 4 - 0 Episkopi

PAOK 3 - 1 Volos


Athugasemdir
banner
banner
banner