Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 13. september 2022 16:17
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
KA mun hefja viðræður við Arnar í næstu viku
,,Bara umhverfið sem við búum við fyrir norðan''
Arnar Grétarsson
Arnar Grétarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bæði Arnar og Hallgrímur Jónasson eru að verða samningslausir
Bæði Arnar og Hallgrímur Jónasson eru að verða samningslausir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Við erum mjög ánægðir með þann árangur sem hann hefur náð
Við erum mjög ánægðir með þann árangur sem hann hefur náð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Grétarsson ræddi í gær við Stöð 2 og var spurður út í stöðu sína og framtíð hjá KA. Arnar er þjálfari liðsins en samningur hans við félagið rennur út eftir tímabilið. Hann hefur verið þjálfari liðsins síðan hann tók við snemma sumars 2020.

Sjá einnig:
Arnar útilokar ekki eitt né neitt - „Ansi margir dagar sem maður er einn"

Fjölskylda Arnars er búsett á höfuðborgarsvæðinu, á meðan er hann þjálfari fyrir norðan. „Mér hefur liðið vel hérna í þessi rúm tvö ár sem ég hef verið hérna. Ég ætla ekki að útiloka eitt né neitt, ég ætla sjá hvernig landið liggur. Ég veit að fjölskyldan tosar mig suður, það verður að segjast alveg eins og er að það eru ansi margir dagar sem maður er einn hér þegar fjölskyldan er fyrir sunnan," sagði Arnar m.a. í viðtalinu.

Fótbolti.net ræddi við Sævar Pétursson, framkvæmdastjóra KA, og spurði hann hvort það væri erfitt að vera með þjálfara sem viðurkennir að hugurinn leiti suður?

„Nei nei, þetta er bara umhverfið sem við búum við fyrir norðan, bæði með leikmenn og þjálfara," sagði Sævar.

„Við eigum eftir að setjast niður með honum og fara yfir málin. Við ákváðum það fyrir einhverjum fjórum vikum síðan að fresta viðræðum við bæði leikmenn og þjálfara þar sem við vorum að fara í að okkar mati dálítið marga úrslitaleiki."

KA hefur á síðustu dögum og vikum spilað toppbaráttuslag við Víking, undanúrslitaleik í bikar gegn FH, leik gegn Fram, liðið mætti svo toppliði Breiðabliks um liðna helgi og á laugardag mætir liðið Val í lokaumferð hefðbundinnar deildarkeppni.

„Við eigum fyrir vikið eftir fullmarga samningafundi, við erum með Arnar sem við eigum eftir að setjast niður með og svo allt þjálfarateymið; Hallgrím, Steingrím, Igor og Branislav. Sem og sex-sjö leikmenn."

„Við klárum slaginn við Val á laugardaginn en svo skipuleggjum við fundi með þessum aðilum og ræðum við þá. Vonandi gengur það hratt og örugglega. Við höfum nokkuð góða mynd af stöðunni sem við höfðum ekki fyrir fjórum-fimm vikum síðan."

„Það eru ennþá sex-sjö vikur eftir af tímabilinu og eðlilegt að menn séu að fara yfir þessi mál á þessum tíma."


Sævar segir að það megi búast við því að viðræður við Arnar hefjist í næstu viku.

„Ég geri ráð fyrir því að við setjumst niður með honum fljótlega eftir helgi sem og öðrum þjálfurum og leikmönnum. Það var alltaf planið hjá okkur að taka stöðuna, sjá hvar við stöndum og hvaða hug þeir hafa til verkefnisins og svo framvegis."

„Addi hefur gert flott starf hjá okkur og við erum mjög ánægðir með þann árangur sem hann hefur náð."


Sævar segir að samstarfið hafi gengið vel. Arnar hafi að langmestu verið á Akureyri í sinni þjálfaratíð hjá KA.

„Addi hefur bara verið hér, ekkert út á það að setja hjá okkur. Þegar það eru frídagar á æfingum hefur hann gert sér ferð suður og fjölskyldan hans hefur eitthvað verið hér líka. Hann hefur ekki misst út neitt hér sem telst eitthvað óeðlilegt, ein og ein æfing sem gerist bara hjá öllum þjálfurum. 100% mæting og virkilega vel gert. Ekkert út á það að setja af okkar hálfu," sagði Sævar.

KA er sem stendur í 3. sæti Bestu deildarinnar og er markmið liðsins skýrt. Liðið ætlar sér að spila í Evrópukeppni á komandi tímabili.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner