Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 14. september 2019 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Marcelino: Ég var rekinn fyrir að vinna bikarinn
Marcelino tók við Valencia í maí 2017.
Marcelino tók við Valencia í maí 2017.
Mynd: Getty Images
Marcelino var rekinn úr þjálfarastöðu sinni hjá Valencia í vikunni eftir að hafa náð í fjögur stig úr þremur fyrstu umferðum deildartímabilsins.

Valencia byrjaði á jafntefli gegn Real Sociedad, svo kom tap gegn Celta Vigo en síðasti leikur Marcelino við stjórnvölinn var 2-0 sigur á nýliðum Mallorca í byrjun mánaðarins.

Undir stjórn Marcelino tókst Valencia að hampa spænska bikarnum og enda í Meistaradeildarsæti en þrátt fyrir það var hann rekinn strax eftir landsleikjahléið.

„Ég er handviss um að atburðarásin sem leiddi til þess að ég var rekinn fór af stað þegar við unnum Konungsbikarinn. Við fengum skilaboð frá stjórninni um að leggja ekki mikið púður í bikarinn en hljómurinn var annar hjá stuðningsmönnum, leikmönnum og þjálfarateyminu. Við vildum vinna þessa keppni," sagði Marcelino.

„Sigurinn í bikarkeppninni var kveikjan að því að ég var rekinn. Mig gat ekki grunað það!"

Gary Neville stýrði Valencia í fjóra mánuði í byrjun árs 2016 og hafði orð á því að Peter Lim, eigandi félagsins, hefði engan áhuga á Evrópudeildinni eða spænska bikarnum.

„Eigandinn sagði mér að koma liðinu út úr þessum keppnum," sagði Neville á sínum tíma og átti við bikarinn og Evrópudeildina.

Tímasetningin á brottrekstrinum kemur sér líklega ekki vel fyrir leikmannahópinn. Valencia heimsækir Spánarmeistara Barcelona í kvöld og flýgur svo til London til að spila við Chelsea í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á þriðjudaginn.

Albert Celades, fyrrum landsliðsþjálfari U21 liðs Spánverja, er tekinn við starfinu.
Athugasemdir
banner
banner
banner