Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   þri 14. desember 2021 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Mjög skrítið ef KSÍ tekur að minnsta kosti ekki símtalið á Grétar
Grétar Rafn er fyrrum landsliðsmaður.
Grétar Rafn er fyrrum landsliðsmaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrrum landsliðsmaðurinn Grétar Rafn Steinsson hætti í síðustu viku í starfi sínu hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Everton.

Hann vann náið með yfirmanni fótboltamála hjá félaginu, Marcel Brands, sem lét af störfum á dögunum. Grétar stýrði leikmannakaupum og þróun leikmanna félagsins.

Brands fékk Grétar til Everton fyrir þremur árum síðan en Grétar var þá starfandi sem yfirmaður fótboltamála hjá Fleetwood Town. Upphaflega var Grétar ráðinn sem yfirnjósnari Everton í Evrópu en fékk síðar stöðuhækkun.

Samkvæmt enskum fjölmiðlum var það ákvörðun Grétars að segja skilið við Everton en eftir brotthvarf hans og Brands verður það stjórinn Rafa Benítez sem tekur ákvarðanir um leikmannakaup.

Það var rætt um Grétar í útvarpsþættinum Fótbolta.net. Þessi fyrrum landsliðsmaður Íslands lærði í fótboltastjórnunarskóla Johans Cruyff í Hollandi og hefur getið af sér gott orð fyrir störf sín á Englandi. Verður hann næsti yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ?

„Hann er búinn að skapa sér sambönd víða og ég held að það sé klárt mál að hann sé að fara að fá tilboð á næstu vikum og mánuðum. Það er spurning hvort hann sé ekki á blaði hjá KSÍ varðandi yfirmann fótboltamála sem við erum alltaf að ræða," sagði Elvar Geir Magnússon.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, gegnir núna starfi yfirmanns fótboltamála. En hann getur ekki verið í báðum störfum og því þarf KSÍ að finna nýjan mann í starfið ef haldið verður með það áfram, eins og búist er við.

„Annað væri mjög skrítið - ef þau taka að minnsta kosti ekki símtalið á Grétar. Ég held að hann sé í mjög miklum möguleika að fá stærra starf og meira spennandi. Þó það sé auðvitað spennandi að stýra uppbyggingunni hér heima. Þegar þú ert búinn að smakka af leikmannamálum í Premier League, þá held ég að þú viljir halda þér á stóra sviðinu. En ég trúi ekki öðru en að Vanda (Sigurgeirsdóttir) taki allavega símtalið á Grétar og fái að minnsta kosti einhverjar ráðleggingar," sagði Tómas Þór Þórðarson.

Hægt er að hlusta á allan útvarpsþáttinn í heild sinni hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Freysi, Eyjar og Emil Páls
Athugasemdir
banner