fim 15. ágúst 2019 15:00
Magnús Már Einarsson
Jói rýnir í úrslitaleikinn: Fjörugur leikur með mörkum og spennu
Jóhann Kristinn Gunnarsson.
Jóhann Kristinn Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmfríður Magnúsdóttir mætir gömlu félögunum í KR.
Hólmfríður Magnúsdóttir mætir gömlu félögunum í KR.
Mynd: Hulda Margrét
Úr leik hjá KR í Mjólkurbikarnum.
Úr leik hjá KR í Mjólkurbikarnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Selfoss og KR mætast í úrslitum Mjólkurbikars kvenna á Laugardalsvelli klukkan 17:00 á laugardag. Jóhann Kristinn Gunnarsson, sérfræðingur Fótbolta.net í Pepsi Max-deild kvenna, spáir hér að neðan í spilin fyrir þennan stórleik.

Selfoss er í 3. sæti í Pepsi Max-deildinni á meðan KR er í 6. sæti en óvænt er að sjá þessi lið í bikarúrslitunum í ár.

Smelltu hér til að kaupa miða á leikinn

Jóhann rýnir í leikinn
Selfoss – KR í úrslitaleik Mjólkurbikarsins 2019. Það hefði verið óvænt ef bara annað þessara liða hefði komist í úrslitaleikinn. Það verður að segjast eins og er að það er með ólíkindum að þau séu að mætast í þessum stærsta leik ársins. Með Val og Breiðablik í þessu banastuði í deildinni.

En bikarinn er að sjálfsögðu allt önnur keppni og allt getur gerst. Fegurðin við fótboltann sem íþrótt skín í gegn er við horfum á hvaða lið mætast í þessum úrslitaleik.

Selfoss er reyndar það lið sem er að banka hvað fastast þessa dagana í bakið á Val og Breiðablik. Hafa verið að safna stigum og koma sér betur inn í baráttuna um þriðja sætið. KR hefur verið að spila betur eftir því sem líður á sumarið og einstaklingar að springa út.

Það er því komið gott af öllu innihaldsríku rausi um hversu óvænt það er að sjá þessi lið þarna. Þau unnu sér það inn og það er ekkert gefins í bikarkeppni. Þau eiga þetta einfaldlega bara skilið.

Hólmfríður Magnúsdóttir er að ná alvöru hæðum hjá Selfossi og gefur liðinu alveg gríðarlegan kraft, gæði, vilja, metnað og reynslu. Hún virðist gera leikmenn í kringum sig betri og sáir sigurvilja í Selfoss liðið. Með henni eru geysilega skemmtilegir og baráttuglaðir leikmenn sem fylgja góðu og vel ígrunduðu skipulagi Alla þjálfara. Hann virðist líka ná skemmtilegri stemmningu í liðið og útsláttarleikir virðast henta þeim vel. Vel þjálfað og skipulagt stemmningslið sem á eftir að koma inn í þennan úrslitaleik sem sigurstranglegra liðið að mínu mati.

Katrín Ómarsdóttir virðist vera í sama hlutverki hjá KR og Hólmfríður er hjá Selfossi. Hún spilar betur og betur og eins og Fríða þá lyftir hún leikmönnum í kringum sig á hærra plan. Ásamt henni eru reynsluboltar í liðinu sem hjálpa KR-ingum í leik eins og þessum. Hungur Guðmundu Brynju Óladóttur í að vinna titilinn hlýtur að vera talsvert enda tekið þátt í þessum leik oft áður. Að ég held án þess að vinna. Möguleikar KR liggja í að Ásdís finni þúfuna sína, Guðmunda noti viljann rétt og komi vel fókuseruð til leiks, Katrín fari fyrir sínu liði með góðum leik og útlendingarnir spili vel.

Þó sumir haldi því fram að þessi úrslitalikur Mjólkurbikarsins verði rólegur, óspennandi og markafár þá held ég að þessu verði öfugt farið. Liðin hafa bæði mikil gæði og markaskorara í sínum röðum. Góðir þjálfarar stýra liðunum og skemmtilegir leikmenn og karakterar prýða bæði lið. Ég á von á fjörugum leik með mörkum og spennu allt til loka.

Hvet alla sem vettlingi geta valdið að mæta á völlinn, styðja sitt lið og/eða njóta þess að horfa á skemmtilega viðureign tveggja liða sem flokka má sem ólíkindatól í sumar. Geta unnið alla og tapað fyrir öllum. Það verður enginn svikinn af næsta laugardegi í Laugardalnum!
Athugasemdir
banner
banner
banner