Mainoo fær nýjan samning - Goretzka og Gomes orðaðir við Man Utd - Bremer og Kerkez við Liverpool
   fim 15. ágúst 2024 09:26
Elvar Geir Magnússon
Pabbi Yamal varð fyrir hnífaárás
Lamine Yamal og pabbi hans, Mounir Nasraoui.
Lamine Yamal og pabbi hans, Mounir Nasraoui.
Mynd: Getty Images
Yamal var stórkostlegur á EM.
Yamal var stórkostlegur á EM.
Mynd: Getty Images
Spænska lögreglan hefur handtekið þrjá einstaklinga eftir að Mounir Nasroaui, faðir spænska ungstirnisins Lamine Yamal, varð fyrir hnífaárás á bílastæði í norðurhluta Barcelona.

Mounir var stunginn tvívegis í kvið og brjóstkassa í átökum í Rocafonda, hverfinu þar sem Yamal ólst upp. Hann er ekki alvarlega slasaður en var fluttur á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hans.

Mounir var klæddur í Barcelona treyju merkta með nafni og númeri sonar hans. Ekki er vitað hvað olli þessum átökum en rannsókn er í gangi og fjórða mannsins er leitað.

Spænskir fjölmiðlar segja að Mounir og árásarmennirnir eigi sér sögu og hafi þekkst lengi. Vangaveltur eru í gangi um hvort árásin tengist því að Yamal leikur fyrir spænska landsliðið en ekki Marokkó en marokkóskir innflytjendur sem búa í hverfinu hafa áður lýst yfir óánægju með þá ákvörðun.

Joan Laporta forseti fótboltafélagsins Barcelona heimsótti Mounir á sjúkrahúsið í gærkvöldi.

Hinn sautján ára gamli Yamal var stórkostlegur með spænska landsliðinu þegar það vann EM í sumar. Hann fagnar oft mörkum með því að mynda 304 með fingrunum en það er póstnúmer Rocafonda.

Frændi leikmannsins, sem á bakarí í Rocafonda, var fyrir nokkrum mánuðum spurður út í þá ákvörðun Yamal að spila fyrir spænska landsliðið en ekki marokkóska. Hann svaraði: „Lamine fæddist hérna. Hann hefur bara heimsótt Marokkó einu sinni."


Athugasemdir
banner
banner