Real Madrid vill Rodri, Trent og Saliba - Karim Adeyemi orðaður við Man Utd - Newcastle vill Gomes
   fös 15. september 2023 20:00
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Undrabörn
Magnús Örn Helgason skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Magnús Örn Helgason.
Magnús Örn Helgason.
Mynd: Úr einkasafni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magnús Örn er þjálfari U15 landsliðs kvenna.
Magnús Örn er þjálfari U15 landsliðs kvenna.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„...we can praise wisely, not praising intelligence or talent. That has failed. Don’t do that anymore. But praising the process that kids engage in: their effort, their strategies, their focus, their perseverance, their improvement. This process praise creates kids who are hardy and resilient."
Carol Dweck

Lengi var talið að það væri sérstaklega hvetjandi fyrir börn og unglinga að vera hrósað fyrir getu sína og hæfileika. 

„Þú ert svo klár."
„Undrabarn."
„Sú hæfileikaríkasta sem ég hef séð". 

Bandaríski sálfræðingurinn Carol Dweck gerði tímamóta rannsóknir á hvatningu og hugarfari barna og hvað það væri sem hefði jákvæð áhrif á þau til framtíðar. Það sem kveikti áhuga Dweck á málefninu var hennar eigin uppvöxtur. Þegar hún var 11 ára gömul raðaði kennari hennar nemendum í sæti í skólastofunni eftir greindarvísitölu og gaf þeim gáfuðustu ýmis verkefni sem öðrum var ekki treyst fyrir. Fljótlega fór hin unga Carol að hafa áhyggjur af orðspori sínu sem einni af þeim klárustu í bekknum. Henni bauðst til dæmis að taka þátt í ýmsum keppnum fyrir hönd skólans. Í öll skiptin hafnaði hún boðinu. „My feeling was: why set myself up for a loss? I’m a winner; why turn into a loser?” segir Dweck í viðtali við Financial Times árið 2019

Í dag er Carol Dweck þekktust fyrir að hafa sett fram kenninguna um gróskuhugarfar (growth mindset) og fastmótað hugarfar (fixed mindset).
 
Í stuttu máli þá felst í gróskuhugarfari að: 
- Taka áskorunum fagnandi
- Læra af gagnrýni og mistökum
- Halda sjó þrátt fyrir mótlæti
- Trúa því að vinna (effort) sé leiðin að færni og árangri

Fastmótað hugarfar er hins vegar að: 
- Forðast áskoranir
- Hræðast mistök
- Gefast fljótt up 
- Trúa því að hæfileikar og gáfur séu meðfæddar og breytist ekki 

Umhverfið sem foreldrar, kennarar og þjálfarar skapa getur ýtt undir ákveðið hugarfar. Grunnskólabekkur Carol Dweck var dæmi um stað þar sem fastmótað hugarfar blómstraði. Kennarinn taldi sig vera að hvetja klárustu krakkana til dáða með því að setja þau á stall en áhrifin reyndust þveröfug.

Börn sem fá stimpilinn „undrabörn" eru sömuleiðis líkleg til að þróa með sér fastmótað hugarfar og njóta ekki hæfileika sinna þegar fram líða stundir. Sum undrabörn komast vissulega alla leið á toppinn. Tiger Woods og Andre Agassi voru keyrðir áfram af feðrum sínum frá barnsaldri og urðu sigursælir í sinni íþrótt. Agassi glímdi við þunglyndi, ánetjaðist amfetamíni og segist hafa hatað tennis. Þegar bestu golfár Tiger voru liðin heltóku vandræði í einkalífinu líf hans. Undradrengir sem urðu afreksmenn voru með kramda sál þrátt fyrir árangur, frægð, frama og ríkidæmi. En hvað með öll undrabörnin sem komust ekki á toppinn heldur sátu eftir með týnda sjálfsmynd sem hafði frá barnsaldri einungis mótast af íþróttum? Hvernig leið þeim með merkimiðann „undrabarn“ eða „súpertalent“ hangandi aftan í sér? 

Annar sálfræðingur, Angela Duckworth, setur fram í bók sinni Grit - The Power of Passion and Perseverance kenningar um að það sé seigla sem hafi besta forspárgildið um persónulegan árangur til framtíðar. Hún rannsakaði meðal annars fólk sem tókst að klára hið mjög svo krefjandi nám í West Point herskólanum í Bandaríkjunum. Var það hraustasta fólkið sem almennt náði að klára? Eða það gáfaðasta? Nei, endurtekið komst Duckworth að því að sterk ástríða og mikil þrautseigja var það sem helst spáði fyrir um hverjir myndu klára námið í West Point. Sama átti við um aðra geira sem Duckworth skoðaði – ástríðan og þrautseigjan voru ríkjandi hjá þeim sem sköruðu fram úr þegar til lengri tíma var litið. Seigla (grit) er ástríða (passion) + þrauseigja (perseverance) fyrir langtímamarkmiðum.

„Grit is living life like it's a marathon, not a sprint.“
Angela Duckworth


Þau sem hafa gróskuhugarfar eru líklegri til að þróa með sér seiglu svo hugtökin tvö tengjast óneitanlega. Þjálfarar, kennarar og foreldrar geta hjálpað krökkum að byggja upp gott hugarfar. Flestir eru meðvitaðir um þetta en gleyma sér stundum og verða klappstýrur frekar en kennarar þegar flinkustu krakkarnir eiga í hlut. Það er nefnilega gaman að þjálfa hæfileikaríka krakka. Þau eru fljót að læra, hjálpa liðinu að vinna og geta veitt æfinga- og liðsfélögum sínum innblástur. Og það er alveg ljóst að hæfleikar (talent) auka líkurnar að þú náir síðar í fremstu röð.

Við þjálfararnir eigum að hjálpa krökkunum að rækta þessa hæfileika og það skiptir máli að skipuleggja vel þjálfun þeirra sem búa yfir miklum hæfileikum – hvort sem þeir eru áunnir eða meðfæddir. Gefa viðeigandi áskoranir og góða endurgjöf. En líklega er enn mikilvægara að leiðbeina þeim með hugarfarið. Kenna að vinnusemi, seigla og vilji til að læra og bæta sig sé það sem muni ráða úrslitum. Hrósum þeim fyrir það sem þau gera frekar en það sem þau eru. Hættum að hengja merkimiða á þau. „Framtíðarleikmaður“, „markadrottning“, „talent“....eru þetta ekki bara krakkar með góða færni og möguleika á að ná langt EF þau hafa áhuga, vilja til að læra og leggja hart að sér þó að á móti blási?

Ef þú ert foreldri eða þjálfari barns (eða unglings) sem er efnilegt í fótbolta þá hvet ég þig að sjálfsögðu til að njóta augnabliksins, en horfa á feril barnsins sem maraþon frekar en spretthlaup.

„Everyone is a work in progress.“
Carol Dweck


Höfundur er þjálfari U15 ára landsliðs kvenna

Heimildir
Andrew Hill / Financial Times - Psychologist Carol Dweck: ‘Everyone is a work in progress‘
Angela Duckworth - Grit - The Power of Passion and Perseverance
Carol Dweck - Mindset – How you can fullfil your Potential
Athugasemdir
banner
banner
banner