banner
   sun 15. desember 2019 12:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ejub glímdi við spilafíkn - Fór til Ólafsvíkur til að bjarga sjálfum sér og fjölskyldu
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
„Ég einfaldlega þurfti að fara aðeins frá Reykjavík," sagði Ejub Purisevic í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu í gær.

Ejub fór yfir feril sinn á Íslandi í gær og var á þessum timapunkti komið að því að ræða af hverju hann fór til Ólafsvíkur á sínum tíma.

„Ég hef aldrei sagt frá þessu en ætla mér samt að gera það núna. Ég þurfti að finna lausnir á mínum málum. Á þessum tíma, sérstaklega eftir tímann hjá Val var ég rosalega mikið í spilakössum."

„Ég spilaði rosalega mikið og ég hugsaði að ég yrði að gera eitthvað í mínum málum. Ég ákvað að fara frá Reykjavík. Það kom ekki til greina að fara í meðferð en ég vissi að ég yrði að gera eitthvað."

„Ég hef ekki sagt neinum frá þessu nema konunni til þessa. Þetta var til að byrja með stærsta ástæðan af hverju ég fór frá Reykjavík til Ólafsvík."


„Svolítið til að flýja sjálfan þig? Spurði Tómas Þór Þórðarson, annar af þáttarstjórnendum.

„Ég vildi laga hlutina hjá mér og það tók nokkur ár. Ég setti ekki krónu í spilakassa í tíu-tólf ár. Ég var rosalega ánægður að ég gat unnið í sjálfum mér og lagað hluti í kringum mig. Það var þess virði."

Förin til Ólafsvíkur því bæði blessun fyrir bæjarfélagið og þig?

„Eins og ég segi hugsaði ég alltaf að ég þyrfti að gera eitthvað og tók á málunum. Ég bað ekki um hjálp heldur fór í burtu til að hjálpa sjálfum mér og til að halda utan um fjölskylduna. Þegar ég horfi til baka er ég rosalega þakklátur konunni minni og samfélaginu í Ólafsvík."

Það má hlusta á þessa sögu Ejubs í spilaranum hér að neðan frá mínútu 36 til mínútu 40.
Mögnuð fótboltasaga Ejub Purisevic
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner