Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 16. janúar 2022 16:08
Brynjar Ingi Erluson
England: Engin þörf á Mane og Salah - Þrenna Harrison tryggði sigur á West Ham
Takumi Minamino og Roberto Firmino fagna þriðja marki Liverpool
Takumi Minamino og Roberto Firmino fagna þriðja marki Liverpool
Mynd: EPA
Fabinho skoraði mikilvægt mark undir lok fyrri hálfleiks
Fabinho skoraði mikilvægt mark undir lok fyrri hálfleiks
Mynd: EPA
Jack Harrison skorar í sigri Leeds á West Ham
Jack Harrison skorar í sigri Leeds á West Ham
Mynd: Getty Images
Liverpool var í góðum gír er liðið vann Brentford 3-0 á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í dag en á sama tíma sigraði Leeds lið West Ham, 3-2, í æsispennandi leik á London-leikvanginum þar sem Jack Harrison gerði þrennu fyrir gestina.

Liverpool er án þeirra Sadio Mane, Mohamed Salah og Naby Keita í þessum mánuði og byrjun febrúar vegna Afríkukeppninnar og öllum ljóst að það gæti orðið mikil blóðtaka en það var ekki að sjá í dag.

Heimamenn sköpuðu sér nokkur ákjósanleg færi í fyrri hálfleik og var Virgil van Dijk nálægt því að koma Liverpool yfir á 22. mínútu en Alvaro Fernandez varði skot hans með löppunum.

Brentford var hársbreidd frá því að taka forystuna á 42. mínútu er Ivan Toney fann Vitaly Janelt í teignum en Andy Robertson komst fyrir boltann í tæka tíð. Tveimur mínútum síðar kom opnunarmark leiksins.

Fabinho skoraði þá með skalla eftir hornspyrnu Trent Alexander-Arnold. Fabinho mætti á fjærstöngina og nikkaði hann í netið. Það verður að segjast að þetta mark hafi verið mikilvægt fyrir Liverpool og að vera yfir í hálfleik.

Bryan Mbeumo átti fínasta skot rétt framhjá marki Liverpool í byrjun síðari hálfleiks áður en Fernandez varði frá Diogo Jota sem var kominn einn í gegn hinum megin á vellinum nokkrum mínútum síðar.

Annað mark Liverpool kom tveimur mínútum síðar. Robertson með frábæra fyrirgjöf inn á Alex Oxlade-Chamberlain sem fleygði sér í flugskalla og skilaði boltanum í netið. Takumi Minamino gulltryggði sigurinn á 77. mínútu eftir að hafa komið inná sem varamaður.

Leikmenn Brentford ætluðu að spila boltanum úr vörninni en Roberto Firmino vann boltann af Christian Norgaard. Hann og Minamino sendu sín á milli áður en japanski landsliðsmaðurinn lagði boltann í netið.

Hinn 17 ára gamli Kaide Gordon kom inná sem varamaður hjá Liverpool og kom sér í dauðafæri undir lokin en aftur varði Fernandez vel í markinu. Fleiri urðu mörkin ekki og Liverpool fór með 3-0 sigur af hólmi.

Liverpool er nú í 2. sæti með 45 stig, ellefu stigum á eftir Manchester City og með leik til góða.

Harrison drjúgur gegn West Ham

Jack Harrison skoraði öll mörk Leeds í 3-2 sigrinum á West Ham á London-leikvanginum.

Það tók hann tíu mínútur að skora fyrsta markið. Aaron Cresswell misreiknaði langan bolta Robin Koch fram völlinn. Raphinha tók á móti honum og fann Mateusz Klisch sem átti skot á markið en Lukasz Fabianski varði boltann út. Þar var Adam Forshaw, sem lagði hann út á Harrison sem skoraði. Fabianski var í boltanum en það var ekki nóg til að koma í veg fyrir mark.

Jarrod Bowen jafnaði eftir hornspyrnu Cresswell á 34. mínútu leiksins áður en Harrison kom Leeds aftur yfir aðeins þremur mínútum síðar. Luke Ayling framlengdi hornspyrnu áfram á fjærstöngina á Harrison sem skoraði.

Skemmtilegur leikur fyrir áhorfendur og fór Leeds með 2-1 forystu inn í hálfleikinn.

Pablo Fornals jafnaði metin þegar sjö mínútur voru búnar af síðari hálfleiknum. Declan Rice átti sendingu á Michail Antonio en fyrsta snertingin hans var slök en þó nógu góð til að vera sending fyrir Fornals. Spánverjinn sá um rest og jafnaði metin.

Harrison svaraði aftur og fullkomnaði þrennu sína á 60. mínútu eftir góða sendingu inn fyrir frá Raphinha. Harrison lyfti síðan boltanum yfir Fabianski og í netið. Raphinha var sjálfur nálægt því að bæta við fjórða markinu nokkrum mínútum síðar en aukaspyrna hans fór í stöng.

Klisch kom boltanum í netið á 73. mínútu eftir magnaðan undirbúning Raphinha. Markið var hins vegar dæmt af þar sem Rodrigo var í rangstöðu og fyrir skoti Klisch.

Leikmenn West Ham töldu sig hafa jafnaði leikinn tíu mínútum síðar. Vladimir Coufal átti skot sem Ilian Meslier varði út á Bowen en aftur varði franski markvörðurinn. Andriy Yarmolenko potaði síðan boltanum yfir línuna en markið dæmt af vegna rangstöðu.

Lokatölur 3-2 fyrir Leeds í Lundúnum. Mikilvæg stig í botnbaráttunni en liðið er nú í 15. sæti með 22 stig en West Ham áfram í 4. sætinu með 37 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Liverpool 3 - 0 Brentford
1-0 Fabinho ('44 )
2-0 Alex Oxlade-Chamberlain ('69 )
3-0 Takumi Minamino ('77 )


West Ham 2 - 3 Leeds
0-1 Jack Harrison ('10 )
1-1 Jarrod Bowen ('34 )
1-2 Jack Harrison ('37 )
2-2 Pablo Fornals ('52 )
2-3 Jack Harrison ('60 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner