mán 16. maí 2022 12:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Hilmar Árni með lifandi leikgreiningar - „Vildum nýta þennan demant"
,,Frábær leiðtogi og týpa sem við viljum halda inn í okkar umhverfi''
Hilmar Árni með spjaldtölvuna á lofti.
Hilmar Árni með spjaldtölvuna á lofti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rýnt í hlutina
Rýnt í hlutina
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hverju þurfum við að breyta?
Hverju þurfum við að breyta?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Hann stýrir spjaldtölvunni, fylgist með leikmönnum inn á vellinum. Við erum með alls konar lifandi tölur og tölfræði um leikmenn og við erum líka að greina leikina út á velli. Þegar við komum inn í klefa í hálfleik þá er hann búinn að skoða alls konar upplýsingar um leikinn og hvað við getum gert betur. Í hálfleik fórum við yfir nokkra uppspilsmöguleika og annað," sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, við Fótbolta.net í dag. Ágúst var spurður út í hlutverk Hilmars Árna Halldórssonar sem sást á varamannabekknum með spjaldtölvu á lofti.

Hilmar hefur verið einn allra besti leikmaður Stjörnunnar síðustu ár en hann meiddist illa í vetur og mun ekkert spila með liðinu í sumar.

„Við ákváðum það, eftir að Hilmar lendir í meiðslum og ljóst að hann yrði lengi frá þá vildum við fá hann inn í okkar teymi og vera með okkur. Hann er frábær leiðtogi og týpa sem við viljum halda inn í okkar umhverfi. Hann hefur verið andlit Stjörnunnar í svolítið langan tíma og verið frábær fyrir félagið. Við vildum ekki missa hann út úr hópnum. Hann æfir á fullu, hrós til hans og við fólum honum þetta hlutverk að vera hluti af okkar teymi, vera í greiningartólinu og fylgjast með. Við vildum nýta hans kunnáttu sem hluti af leikmannahópnum ásamt því að vera hluti af þjálfarateyminu. Hann er góð tenging á milli."

Gústi segir að þjálfarateymið hafi farið yfir hlutverkið með Hilmari og leikmaðurinn var meira en klár í verkefnið.

„Þegar þú lendir í svona áfalli að detta út, vera ár í burtu. Við vildum nýta þennan demant í okkar hóp og fannst tilvalið að fá hann í þessar greiningar."

Hlutverk Hilmar er að rýna í leikinn í gegnum upptökur úr Spiideo myndavél á vellinum.

„Það er auðvitað alltaf gott að tala um hlutina en það er líka gott að sjá þá. Við erum með skjá inn í klefa sem við nýtum í þetta. Það eru nokkur móment í gær sem við fórum yfir og Hilmar fann út hvað við þyrftum að gera. Maður er sjálfur dálítið upptekinn í að vera í boðvanginum og fylgjast með leiknum. Jökull er líka þar og fær mikla hjálp frá Hilmari."

Hilmar hjálpar einnig til við skiptingar og að lesa í tölur sem fást úr vestum sem allir leikmenn eru með á meðan leik stendur.

„Varðandi skiptingar er mjög gott að vera með þriðja manninn að vera í þessari greiningu ásamt okkar styrktarþjálfara [Þór Sigurðsson] sem ser líka að skoða tölur varðandi hjartslátt og annað. Þetta er orðið mjög tæknilegt, við erum að nýta alla þá tækni sem við höfum og félagið er búið að fjárfesta í frábærum GPS vestum - þetta nýjasta og flottasta sem tekið var í notkun fyrir nokkrum vikum. Þar getum við séð lifandi tölur um hvað er að gerast hjá hverjum leikmanni. Þetta skilar sér í betri frammistöðu og vonandi betri árangri líka."

Ágúst er virkilega ánægður með Hilmar Árna.

„Hann gefur okkur breidd inn í margar ákvarðanir og er sjálfur með alls konar hugmyndir og pælingar ásamt því að vera frábær leiðtogi. Það verður svo frábært að vinna með honum inn á vellinum á næsta ári, hlökkum til að fá hann inn á völlinn aftur þó að það sé langt í hann."

Hefur hann gefið í skyn að hann vilji verða þjálfari í framtíðinni?

„Ég held að þetta gefi honum smá, að vera bæði hluti af liðinu og teyminu. Það verður auðveldara fyrir hann að sinna sínu, mæta á æfingar og vera meira tilbúinn þegar hann verður klár inn á völlinn. Hann fær þá frábæra innsýn í hvað við erum að gera. Hann er mögulega framtíðarþjálfari en við skulum leyfa honum að koma til baka og vera fótboltamaður í einhver ár í viðbót - enda frábær leikmaður," sagði Gústi að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner