Fimm stór félög að eltast við Semenyo - Man Utd í viðræðum um nítján ára miðjumann - Arsenal hefur áhuga á leikmanni AC Milan
banner
   mið 17. desember 2025 17:21
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Strasbourg
Stuðningsmaður Víkings túlkur á fréttamannafundi Breiðabliks
Sverrir við hlið Höskuldar.
Sverrir við hlið Höskuldar.
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Steinke
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Steinke
Þjálfarinn Ólafur Ingi Skúlason og Höskuldur Gunnlaugsson sátu fyrir svörum á fréttamannafundi sem haldinn var eftir æfingu Breiðabliks á Stade de la Meinau, heimavelli Strasbourg, í dag. Annað kvöld fer þar fram leikur Strasbourg og Breiðabliks í lokaumferð Sambandsdeildarinnar.

Undirritaður var fulltrúi Fótbolti.net á fundinum, eini íslenski fjölmiðlamaðurinn, en fleiri Íslendingar voru þó í fundarherberginu. Við hlið Höskuldar og Ólafs sat Sverrir Ögmundsson sem fenginn var til þess að túlka spurningar fréttamanna og svör Íslendinganna.

Sverrir er átján ára og er í framhaldsskólanámi í París, hefur búið þar í fjögur ár.

Strasbourg var í leit að túlki fyrir viðburði í kringum leikinn og móðir Sverris, sem er starfsmaður íslenska sendiráðsins í París, stakk upp á honum sem túlki og Sverrir sló til.

Fjölskyldan bjó í Fossvogi þegar hann átti heima á Íslandi og æfði hann því með Víkingi og heldur hann með liðinu. Hann er í dag leikmaður ACBB í París og spilar með liðinu í Regional 2 deildinni, sjöundu efstu deild Frakklands. Hann hefur reyndar þurft að glíma talsvert við meiðsli síðustu misseri og því ekki spilað mikið.

Hann fékk leyfi frá skólanum til að koma til Strasbourg og verður þar í dag og á morgun. Frammistaða hans á fundinum var upp á tíu! Hann kom öllu vel til skila og gekk fundurinn mjög smurt fyrir sig.

Sverrir og Ólafur Ingi hafa hist áður því Sverrir var í æfingahópi íslenska U17 landsliðsins fyrir tæpum tveimur árum síðan og Ólafur Ingi var hluti af þjálfarateyminu í því verkefni.

Í fundarsalnum var einnig frændi Sverris, Sölvi Stefánsson, sem er leikmaður AGF í Danmörku. Hann er í heimsókn hjá Sverri og skaust með í þetta verkefni.
Athugasemdir
banner
banner
banner