Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   þri 16. júlí 2019 13:33
Arnar Daði Arnarsson
Þórhallur Víkings: Ég var drekinn
Þórhallur Víkingsson.
Þórhallur Víkingsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rakel Logadóttir stýrir liðinu í næstu leikjum.
Rakel Logadóttir stýrir liðinu í næstu leikjum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þórhallur Víkingsson var rekinn sem þjálfari HK/Víkings í gær. Þórhallur tók við liðinu í október árið 2017 en hann hafði áður þjálfað 2. flokk félagsins.

Honum tókst að halda liðinu uppi i efstu deild á fyrsta tímabili í fyrra en liðið situr á botni deildarinnar þessa stundina með sex stig.

„Samkvæmt yfirlýsingu frá HK þá var þetta samkomulag en þetta var ekkert svoleiðis. Ég var drekinn, ef svo má segja. Ég vildi halda áfram og mér fannst við vera á þokkalega góðu róli. Fótboltalega séð var þetta einn skítaleikur en annars vorum við þokkalegar í öllum hinum leikjunum. Ég var svekktur og þetta kom mér á óvart," sagði Þórhallur í samtali við Fótbolta.net.

HK/Víkingur mætir KR í kvöld en Þórhallur var rekinn rúmlega sólarhring fyrir þann leik.

„Þegar ég vaknaði í gær þá hélt ég að ég væri að fara stýra liðinu gegn KR í kvöld," sagði Þórhallur sem setur spurningarmerki við tímasetninguna á uppsögninni.

„Það er margt í þessu sem kemur á óvart. Við eigum þrjá leiki núna á einni viku. Ég vona og ég veit að liðið er í góðum höndum og óska þeim góðs gengis," sagði Þórhallur en Rakel Logadóttir sem hefur verið Þórhalli til aðstoðar stýrir HK/Víkingi í næstu leikjum. Þórhalli líst vel á það.

„Rakel er frábær þjálfari og við áttum virkilega gott og skemmtilegt samstarf. Ég held að við bæði höfum skemmt okkur í þessu samstarfi og ég er svekktur að þurfa að hætta að vinna með henni svona snemma. Ég hefði viljað vinna með henni lengur."

Hann segir að hann hafi haft mikla trú á því að geta haldið liðinu uppi í Pepsi Max-deildinni.

„Ef HK/Víkingur vinnur KR í kvöld þá er liðið komið í góð mál. Við höfum tapað mörgum 50/50 leikjum vegna þess að við erum ekki með markaskorara en vonandi skorar Sólveig fyrir liðið þessi mörk sem hefur vantað. Það er mjög stutt í þokkalegt sæti."

Þórhallur segist ekki vera hættur í þjálfun.

„Nú tekur við sumarfrí og síðan verð ég á markaðnum í haust. Mér finnst gaman að þjálfa og ég held að ég hafi töluvert fram að færa," sagði Þórhallur að lokum í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner