Man Utd reynir við Branthwaite - Slot hefur áhuga á Watkins - Sesko efstur á blaði Arsenal
   fim 16. október 2014 17:10
Sema Erla
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þegar íþróttir breytast í hápólitískar deilur
Af vefsíðunni evropan.is
Sema Erla
Sema Erla
Albanskir stuðningsmenn á Laugardalsvelli.
Albanskir stuðningsmenn á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það sauð upp úr í Belgrad.
Það sauð upp úr í Belgrad.
Mynd: Getty Images
Fáninn sem flogið var með yfir völlinn.
Fáninn sem flogið var með yfir völlinn.
Mynd: Getty Images
Serbneskur stuðningsmaður kveikir í albanska fónanum.
Serbneskur stuðningsmaður kveikir í albanska fónanum.
Mynd: Getty Images
Albanska landsliðið heimsótti Ísland í síðustu undankeppni.
Albanska landsliðið heimsótti Ísland í síðustu undankeppni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr stúkunni á leiknum á þriðjudag.
Úr stúkunni á leiknum á þriðjudag.
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eins og þúsundir Íslendinga var ég stödd á Laugardalsvellinum á mánudaginn og varð vitni að því þegar Íslendingar sigruðu Hollendinga í undankeppni EM 2016, en nokkrum mánuðum áður komust Hollendingar ansi nálægt því að sigra Heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Tilfinningin var ólýsanleg. Gleðin, stoltið og sigurvíman réð ríkjum á Laugardalsvellinum, rétt eins og hjá öllum þeim sem á leikinn horfðu og hafa áhuga á knattspyrnu. Það er á tímapunktum eins og þessum sem þjóðernissinninn í manni vaknar af værum blundi og tekur stjórnina. Ísland, Ísland, Ísland, ómaði um borgina.

Á þriðjudaginn hélt knattspyrnuveislan áfram og þá fylgdist maður með Portúgölum sigra Dani (sem var heldur ekkert leiðinlegt fyrir þjóðernissinnann – sjálfstæðisbaráttan, halló!), Norður-Íra sigra Grikki (sem var ágætis skemmtun fyrir Tyrkjann í manni) og Skota gera jafntefli við Pólverja (sem var leiðinlegt því maður er ennþá að jafna sig á því að Skotar höfnuðu sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu í síðasta mánuði).

Ég er viss um að ég sé ekki sú eina sem upplifi íþróttir stundum (með áherslu á stundum) á þessa vegu, sérstaklega þegar landsliðinu eða félagsliðinu manns gengur vel. Þá upplifum við tilfinningar sem mörg okkar vissu ekki einu sinni að við ættum til. Hvað þá landráðsmenn og föðurlandssvikarar eins og ég?

Þess vegna eru margir sem tala fyrir því að íþróttir og stjórnmál séu tveir hlutir sem aldrei eiga samleið, að aldrei megi blanda saman íþróttum og pólitík. Að sama skapi eru margir sem telja að íþróttir eða íþróttaviðburðir séu besta leiðin til þess að koma pólitískum skilaboðum áleiðis, enda hafa íþróttaviðburðir í gegnum tíðina verið notaðir til þess að mótmæla, til þess að koma ákveðnum félagslegum eða pólitískum skilaboðum á framfæri. Þannig var Suður-Afríku til dæmis haldið frá alþjóðamótum í knattspyrnu á meðan aðskilnaðarstefnan var þar við lýði. Þá var Júgóslavíu/Serbíu meinuð þátttaka í FIFA og UEFA mótum í kjölfar þjóðernishreinsana í Bosníu. Þetta eru einungis tvö dæmi af mörgum um hvernig íþróttaviðburðir hafa verið notaðir til þess að senda pólitísk skilaboð og hafa áhrif á ástand sem ekki virðist ætla að breytast.

Að sama skapi hafa íþróttaviðburðir verið notaðir af sumum sem tilefni til þess að liðka fyrir átökum, ofbeldi, hatri og rasisma. Sumir ganga svo langt að mæta á knattspyrnuleiki í þeim eina tilgangi að slást við stuðningsmenn andstæðingsins. Það eru því til góð sem og slæm dæmi um afleiðingar þess að blanda saman íþróttum og pólitík.

Svo eru til dæmi um íþróttaviðburði þar sem allt hefur farið úr böndunum og ekki var hægt að sjá fyrir endann á ástandi sem skapaðist. Það kom því á óvart að Evrópska knattspyrnusambandið (UEFA) hafi lítið sem ekkert aðhafst þegar Serbía og Albanía drógust í sama riðil í undankeppni EM.

Mikil spenna, hatur og illindi hafa alla tíð einkennt samskipti þessara tveggja þjóða. Átök, ofbeldi og stríð hafa í sífellu brotist út þeirra á milli. Mikil þjóðernisspenna hefur ávallt ríkt á milli Kosóvó-Albana og Serba, en meirihluti íbúa í Kosóvó er af albönskum uppruna, en Kosóvó var hluti af Serbíu þar til þeir lýstu yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008, við litla gleði Serba, sem viðurkenna Kosóvó ekki sem sjálfstætt ríki. Þá eru Albanir í minnihluta í Serbíu.

Blóðug saga Serba og Albana hefði mögulega átt að vera fyrsta vísbendingin um að það væri eflaust ekki góð hugmynd að hafa þessi tvö lið í sama riðli. Þrátt fyrir að fordæmi séu til fyrir því að lið megi ekki dragast saman í riðil (Spánn og Gíbraltar, Armenía og Aserbaídjan) var ekkert aðhafst.

Þegar komið var að leik Serba og Albana var búið að flokka leikinn sem „leik í hæsta áhættuflokki“ vegna þess haturs og spennu sem ríkir á milli Serba og Albana. Það hefði mögulega átt að vera önnur vísbendingin um að eitthvað gæti farið úrskeiðis í leiknum.

Þar sem leikurinn var spilaður í Serbíu voru engir albanskir stuðningsmenn leyfðir á vellinum, og því var völlurinn fullur af 20.000 stuðningsmönnum Serba, auk örfárra albanskra stjórnarmanna. Það var mögulega þriðja vísbendingin um að þetta myndi aldrei ganga upp.

Ég veit ekki hvort það kom Evrópska knattspyrnusambandinu á óvart að allt sauð upp úr í leiknum á þriðjudaginn, en fyrir mér var þetta einungis spurning um hvenær allt færi til fjandans.

Það var undir lok fyrri hálfleiks að dróna með albanskan fánanum (sem reyndar vísaði til Stór-Albaníu sem hluti af Serbíu tilheyrir) var flogið inn á leikvöllinn, en það kom í kjölfar þess að serbnesku stuðningsmennirnir hrópuðu „dauða fyrir Albana“ þegar þjóðsöngur Albana var fluttur í upphafi leiks.Einn af serbnesku leikmönnunum, Stefan Mitrovic, reif fánann niður og albönsku leikmennirnir brugðust illa við því og reyndu að ná fánanum af honum. Á þessum tímapunkti var ekki aftur snúið. Slagsmál brutust út á milli leikmanna og aðstandenda liðanna, og áhorfendur fylgdu í kjölfarið. Leikmenn voru barðir, það var sparkað í þá, stólar, flugeldar og önnur vopn voru notuð gegn þeim og á endanum þurftu albönsku leikmennirnir að flýja leikvöllinn til þess að komast á lífi frá knattspyrnuleiknum.

Leiknum var frestað og Albanir snéru heim, með að minnsta kosti fjóra særða leikmenn, en deilunni var langt frá því að vera lokið, en hún færðist frá knattspyrnuvellinum yfir til stjórnmálamannanna. Stuttu eftir að leiknum var frestað fóru að berast fregnir þess efnis frá Serbíu að bróðir Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu, hafi stýrt drónanum á leikvellinum og að hann hefði verið handtekinn. Hann neitar því að hafa haft eitthvað með uppátækið að gera.

Á sama tíma og Aleksandar Vucic, forsætisráðherra Serbíu, lýsti atvikinu sem alvarlegri pólitískri ögrun sem meðal annars átti að niðurlægja serbnesku þjóðina, fögnuðu Kosóvó-Albanir uppátækinu á götum Pristínu, höfuðborgar Kosóvó, en einnig var fagnað í Makedóníu. Vucic sakaði albanska ráðamenn um að standa að baki aðgerðarinnar og forseti landsins, Tomislav Nikolic, sagði að það myndi taka Albaníu áratugi ef ekki aldir, að verða venjulegt ríki. Rama, forsætisráðherra Albaníu gagnrýndi serbneska aðdáendur fyrir ljóta rasíska hegðun.

Ráðamenn hafa því lítið gert til þess að róa ástandið og átökin, sem færðust frá knattspyrnuvellinum yfir í forsætisráðherra og forsetahallirnar í Serbíu og Albaníu, vakti að sjálfsögðu athygli Evrópusambandsins, sem síðustu 15 ár hefur lagt mikið á sig til þess að reyna að halda stöðugleika og frið á svæðinu, og er heimsókn forsætisráðherra Albaníu til Serbíu, sem á að eiga sér stað í næstu viku, hluti af þeirri vinnu, en ef af heimsókninni verður, sem nú er óvíst, yrði það í fyrsta skipti í 68 ár sem svo háttsettur Albani fer í opinbera heimsókn til Serbíu.

Það verður að teljast óásættanlegt að Evrópska knattspyrnusambandið hafi ekki brugðist við öllum þeim viðvörunarbjöllum sem hringdu í kringum skipulagningu leiksins, en afleiðingarnar af knattspyrnuleiknum ná töluvert lengra en til serbneska og albanska knattspyrnusambandsins, sem að öllum líkindum verður refsað, og óvíst er hvort reynt verði að spila leikina á milli þjóðanna.

Áratugalöng vinna til þess að koma á friði og stöðugleika á svæðinu er nú að miklu leyti farin í vaskinn og óvíst er hvernig samskiptum þessara þjóða verður háttað í framtíðinni. Evrópska knattspyrnusambandið sá augljóslega ekki fyrir sér hversu víðtækar afleiðingarnar gætu orðið af því að láta Serbíu og Albaníu vera í sama riðli í undankeppni fyrir knattspyrnumót og allt í einu er þjóðernisrembingurinn yfir því að Ísland hafi unnið Hollendinga og lúmsk gleði yfir því að Danir hafi tapað sínum leik orðinn að smámunum sem skipta engu máli.

Hugmyndin um að íþróttir og stjórnmál séu tveir hlutir sem aldrei eiga samleið og að aldrei megi blanda saman íþróttum og pólitík er ágæt, svo langt sem hún nær. Serbar og Albanir hafa hins vegar sýnt okkur að sú hugmyndafræði um að hægt sé að skilja á milli íþrótta og stjórnmála er dauð. Það hafa fjölmiðlarnir líka gert, sem hafa lýst þessari atburðarás sem „drama“ á meðan réttast væri að lýsa henni sem íþróttaviðburði sem breyttist í hápólitíska deilu og þá stærstu sem ríkin hafa staðið frammi fyrir síðustu ár, og óvíst er hvernig hún endar.

Höfundur er ritstjóri evropan.is
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner