Wes Foderingham, markvörður Sheffield United, greinir frá því á Instagram að hann hafi orðið fyrir kynþáttafordómum í 2-1 tapinu gegn Tottenham í Lundúnum í gær.
Markvörðurinn hefur átt ágætis byrjun á tímabilinu. Hann var maður leiksins í 2-1 tapinu gegn Manchester City og verið nokkuð traustur á milli stanganna.
Eftir leikinn varð hann fyrir kynþáttafordómum af hálfu stuðningsmanna Tottenham á samfélagsmiðlum, en þeir hótuðu einnig að gera fjölskyldu hans mein.
Hann segir frá þessu á Instagram og biður þar fólk að fara varlega í orðavali.
„Ég hef ekkert á móti því að stuðningsmenn andstæðinganna kalli mig hinum og þessum nöfnum, en slakið á með kynþáttafordómana og þessum fjölskylduhótunum. Hugsið áður en þið skrifið,“ skrifaði Foderingham.
Athugasemdir