Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 18. apríl 2022 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Menn gefa sér það að við höfum borgað meira"
Hallur Hansson.
Hallur Hansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur myndast nokkur umræða um launatölur leikmanna í Bestu deild karla í vetur.

Þegar Aron Jóhannsson og Hólmar Örn Eyjólfsson fóru í Val, þá fóru af stað sögur um að þeir væru tveir launahæstu leikmenn í sögu íslenska boltans.

Aron kastaði því fram að hann hefði heyrt að ákveðinn leikmaður í KR væri launahæstur. Var hann þar að tala um færeyska landsliðsfyrirliðann, Hall Hansson.

„Ég væri til í að fá hans díl allavega, eins og það hljómar," sagði Aron.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var gestur í þættinum Chess After Dark á dögunum þar sem hann var spurður út í þetta - hvort Hallur væri í raun og veru launahæstur í deildinni.

„Það eru einhver önnur félög sem voru að bjóða þessum leikmanni samning. Ef að leikmaður vill koma í KR þá kemur hann á þeim forsendum sem við erum að bjóða upp á. Það gæti verið að annað félag hafi verið að bjóða honum miklu meira en við," sagði Rúnar.

„Það er ekki þar með sagt að liðið sem hann velur að fara til hafi yfirboðið alla hina. Þá ertu að segja það beint að leikmaðurinn sé bara að hugsa um peningana. Það er ekki alltaf þannig. Ég vil að leikmaður sem er að koma í KR sé að koma í KR því hann vill spila fyrir mig og vill spila fyrir KR, að hann telur góðan möguleika á því að við getum barist um eitthvað."

„Það er voða auðvelt að segja af því eitthvað félag bauð Halli svona mikið að hann sé langdýrasti leikmaðurinn á Íslandi. Menn gefa sér það að við höfum borgað meira. Það þarf ekki alltaf að vera svoleiðis. Það getur vel verið, ég fer ekki í samningamál. Stjórnin fer í það."

Rúnar segir að Aron viti ekkert hvað Hallur sé að fá borgað. „Hann veit það ekki frekar en ég veit hvað hann hefur. Þetta eru bara sögusagnir. Auðvitað getur eitthvað verið rétt og annað rangt."

Það verður fróðlegt að fylgjast með Halli í KR í sumar. KR-ingar hefja leik í Bestu deildinni gegn Fram á miðvikudag.

Sjá einnig:
Rúnar á því að allt of margir leikmenn á Íslandi séu á of háum launum


Athugasemdir
banner
banner
banner