þri 18. júní 2019 15:00
Arnar Daði Arnarsson
Andri Rúnar: Risafélag sem á ekkert heima í C-deildinni
Andri Rúnar.
Andri Rúnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn, Andri Rúnar Bjarnason skrifaði í gær undir tveggja ára samning við þýska C-deildarliðið Kaiserslautern.

Andri Rúnar er mættur til Þýskalands en hann segir að hlutirnir hafi verið fljótir að gerast og stutt síðan hann heyrði af áhuga Kaiserslautern.

„Þetta kom upp fyrir síðustu tvo leikina fyrir sumarfrí-ið og þá heyrði ég að þeir væru búnir að vera fylgjast með mér og búnir að senda inn fyrirspurn til Helsingborgs. Síðan voru þeir á síðustu leikjum Helsingborgs og um leið að sumarfrí-ið byrjaði þá fóru þeir á fullt í að reyna fá mig og þetta tók ekki langan tíma eftir það byrjaði," sagði Andri Rúnar í samtali við Fótbolta.net.

Kaiserslautern er sögufrægt félag sem hefur fallið ansi harkalega af toppnum. Liðið endaði í 9. sæti C-deildarinnar á síðasta tímabili en félagið var að leika í fyrsta sinn í sögunni í C-deildinni. Jón Daði Böðvarsson lék með félaginu í B-deildinni tímabilið 2016. Andri Rúnar segist hafa litið mjög vel á félagið strax frá upphafi.

Kaiserslautern féll úr Bundesligunni tímabilið 2011/2012 og hafði leikið í B-deildinni allt til síðasta tímabils þegar liðið lék í C-deildinni.

„Ég hef alltaf horft til Þýskalands og langað að spila í Þýskalandi. Þetta er risafélag sem á ekkert heima í C-deildinni og þeir leggja mikla áherslu á að fara upp um deild. Mér leist mjög vel á það markmið."

Andri Rúnar átti hálft ár eftir að samningi sínum við sænska félagið Helsingborgs.

„Við vorum ekkert byrjaðir í neinum viðræðum um næsta samning og ég held að þeir hafi vitað að ég stefndi á að prófa eitthvað nýtt og taka stærra skref," sagði Andri Rúnar.

Hann segir að þýska félagið hafi sótt hart eftir því að fá hann til sín og hann sé spenntur fyrir nýjum verkefnum.

„Ég hitti þjálfarann og íþróttastjórann áður en ég skrifaði undir og þeir fóru yfir hlutina og mér fannst það mjög heillandi hvernig þeir sjá þetta fyrir sér. Þeir sýndu gríðarlega mikinn áhuga á að fá mig og það spilar ansi stórt hlutverk. Ég er hrikalega spenntur. Félagið er með risa völl og marga stuðningsmenn og þetta verður bara gaman," sagði Andri Rúnar en til að mynda voru rúmlega 21.000 áhorfendur á lokaleik félagsins í C-deildinni á síðasta tímabili.
Athugasemdir
banner
banner