Man Utd skoðar það að fá Tuchel - Postecoglou fær fjármagn í sumar - Greenwood eftirstóttur á Englandi
banner
   fim 19. mars 2020 17:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sá þátt um ÍA árið 1997 og verið dyggur stuðningsmaður síðan
Michael Morgan, stuðningsmaður ÍA frá Birkenhead í Englandi.
Michael Morgan, stuðningsmaður ÍA frá Birkenhead í Englandi.
Mynd: Úr einkasafni
Mynd frá árinu 2007 þegar Mike kom til Íslands á vegum ÍA.
Mynd frá árinu 2007 þegar Mike kom til Íslands á vegum ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Mike með Sigurði Jónssyni eftir leik 2. flokks ÍA gegn Derby County í Evrópukeppni unglingaliða fyrir jól.
Mike með Sigurði Jónssyni eftir leik 2. flokks ÍA gegn Derby County í Evrópukeppni unglingaliða fyrir jól.
Mynd: Úr einkasafni
Mike á mikið af minjagripum tengdum ÍA.
Mike á mikið af minjagripum tengdum ÍA.
Mynd: Úr einkasafni
Treyjur sem eru í safni Mike.
Treyjur sem eru í safni Mike.
Mynd: Úr einkasafni
Guðjón Þórðarson er goðsögn hjá ÍA.
Guðjón Þórðarson er goðsögn hjá ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Gulir og glaðir.
Gulir og glaðir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pepsi Max-deild karla er ekki mjög alþjóðleg deild og eiga félög deildarinnar kannski ekki marga stuðningsmenn utan Íslands. Stuðningsmennirnir eru þó nokkrir og er Englendingurinn Michael Morgan einn þeirra.

Mike er frá Birkenhead í Englandi, bær sem er ekki langt frá Liverpool. Hann starfar sem rafvirki og styður Tranmere Rovers í C-deild Englands, en hann er einnig harður stuðningsmaður ÍA. Frá árinu 1997 hefur hann stutt Skagamenn til dáða.

„Áhugi minn á íslenskum fótbolta hófst seint á níunda áratug 20. aldar, 1988 eða 1989; eitthvað um það leyti. Íslenskur fótbolti var frábrugðinn ensku deildinni, þýsku deildinni, Ítalíu og Spáni. Hann var öðruvísi. Það var eitthvað sem heillaði mig, skrýtin nöfn og félögin voru bara stafir; FH, KR, ÍA." segir Mike við Fótbolta.net.

„Svo komu nokkrir íslenskir leikmenn til Englands. Eins og Siggi Jónsson og Toddi Örlygsson."

„Internetið var ekki til og þú gast kannski fundið úrslitin úr deildinni í einhverju tímariti. Ég vissi af tilvist ÍA, en svo sá ég innslag um félagið á Sky Sports, í þætti sem hét Football Mundial og eftir það var ekki aftur snúið."

Í þættinum var fjallað um sigursælt lið ÍA sem varð Íslandsmeistari fimm ár í röð, frá 1992 til 1996. Mike deildi þættinum á Facebook-síðu sinni og hann má sjá hér að neðan. Í þessum skemmtilega þætti má meðal annars sjá skemmtilegt viðtal við Loga Ólafsson, þáverandi þjálfara ÍA, og þá kemur Guðjón Þórðarson einnig við sögu.

Stofnaði vefsíðu um ÍA og var boðið á leik
Þegar internetið varð til þá stofnaði Mike vefsíðu fyrir enskumælandi lesendur um íslenska félagið frá Akranesi. Hann hætti að skrifa á vefsíðuna árið 2018, en hefur þess í stað fært sig yfir á samfélagsmiðla undir nafninu Skagamenn UK.

Hann vakti athygli með skrifum sínum á vefsíðuna um ÍA og fékk hann að koma hingað til lands í boði félagsins árið 2007.

„Ég stofnaði vefsíðu um ÍA og ég held ég hafi séð um hana í um 20 ár. Ég fékk hugdettu um að stofna vefsíðu þar sem það var enginn staður þar sem þú gast lesið um úrslitin á ensku. Ég skrifaði leikskýrslur, fréttir og setti inn úrslit. Þetta var fyrir fólk sem vildi lesa um þetta á ensku."

„Nokkrir mismunandi aðilar höfðu samband við mig út af vefsíðunni. Hjálmur Geir Hjálmsson, fjölmiðlafulltrúinn Sigþór Eiríksson og formaðurinn Gísli Gíslason komu mér til Íslands. Þeir borguðu fyrir mig flugið og útveguðu mér samastað," segir Mike.

„Þetta var flug með Icelandair frá Manchester á föstudagskvöldi. Ég sá fyrsta leikinn tímabilið 2007 gegn FH (3-2 tap) og ég hitti alla þann dag; Geir Þorsteinsson, Ríkharð Jónsson, Loga Ólafsson, Jón Gunnlaugsson."

„Vinur minn Hjálmur Geir sótti mig á flugvöllinn og fór með mig á Akranes. Ég fór á leikinn gegn FH daginn eftir og hitti alla. Á sunnudeginum fór ég til Reykjavíkur og sá leik Fram og Vals. Helginni varði ég mest á Akranesi að skoða mig um og hitta fólk. Þú getur varla hitt vingjarnlegra fólk en ég hitti þarna á Akranesi."

Mike fór í tvær ferðir til Íslands sumarið 2007, en á enn eftir að fara í sína þriðju ferð. „Ég fór heim á mánudeginum, en ég kom svo aftur síðar það sumar fyrir lokaleik tímabilsins gegn Víkingi Reykjavík. Ég bókaði þá ferð sjálfur og sá ÍA vinna 1-0."

„Ég hef ekki komið aftur til Íslands síðan 2007. Það er alltaf á dagskránni, en ég á núna 17 ára son sem vill fara með mér. Verðið á ferðinni tvöfaldast því þar sem við erum að leita að tveimur flugsætum. Svo segir konan mín: 'ég skal koma með'. Dóttir mín vill svo koma líka þannig að við myndum fjögur fara. Það myndi kosta eitthvað um 3000 pund fyrir okkur."

Íslendingar elska ensku úrvalsdeildina, en ekki er hægt að staðfesta þá fullyrðingu að Englendingar elski Pepsi Max-deildina jafnmikið. „Árið 2007 þegar ég var að fljúga heim frá Íslandi þá var flugvélin full af stuðningsmönnum Manchester United, Liverpool og þá væntanlega Bolton líka. Þeir voru að fara að horfa á enskan fótbolta, en ég var á leiðinni heim eftir að hafa horft á leik á Íslandi. Svolítið klikkað en samt mjög gaman."

„Ég sá 2. flokk ÍA spila gegn Derby á Pride Park í Evrópukeppni unglingaliða fyrir jól og svo ætlaði ég mér að fara og sjá meistaraflokkinn spila er þeir komu í æfingaferð til Wales í apríl í fyrra. Þeir spiluðu æfingaleik en hann var ekki tilkynntur fyrr en samdægurs og ég náði því ekki leiknum."

Safnar ÍA minjagripum
Mike hefur í gegnum tíðina safnað að sér minjagripum tengdum sínu uppáhalds félagi á Íslandi. Hann á treyjur, bæklinga og ýmislegt annað.

„Ég safna alls konar hlutum. Ég hef varið nokkrum pundum til dæmis á Ebay. Safnið er orðið nokkuð stórt, það eru örugglega 70-80 mismunandi hlutir í því núna. Búningarnir eru margir og hef ég fengið nokkrar áritaðar treyjur sendar. Margir hlutir hafa verið sendir til mín, en ég hef líka keypt mikið á netinu þó það sé stundum erfitt að finna hluti til að kaupa."

Mike minnist einnig á það að hann eigi allt Íslensk knattspyrna safnið, bækurnar eftir Víði Sigurðsson. Honum vantaði árin 1981 og 1982, en vinur hans í Reykjavík hjálpaði honum að finna þær fyrir nokkrum árum.

Guðjón Þórðarson í uppáhaldi
Af þeim sem hafa spilað eða þjálfað ÍA er Guðjón Þórðarson í mestu uppáhaldi hjá Mike. Gaui Þórðar spilaði allan leikmannaferil sinn fyrir ÍA, fyrir utan stutt stopp í KA árið 1988. Hann vann fimm Íslandsmeistaratitla sem leikmaður ÍA og fimm bikarmeistaratitla. Sem þjálfari hefur hann þrisvar orðið Íslandsmeistari með Skagamönnum.

„Ég og Gunnlaugur Jónsson áttum gott samband," segir Mike spurður út í uppáhalds Skagamanninn. „Af þeim sem ég hef hitt er það Guðjón Þórðarson. Hann var nokkuð frægur fyrir árin sín hjá Stoke og var hann líka hjá Crewe og Notts County."

„Hann sagði mér líka einu sinni að hann hefði farið í atvinnuviðtal út af stjórastarfinu hjá Tranmere. Það hefði verið gaman ef hann hefði fengið starfið, en því miður gerðist það ekki. Hann hefur gert mikið fyrir ÍA sem leikmaður og þjálfari."

„Ég hitti Guðjón og talaði við hann þegar hann var í landsliðverkefni sem landsliðsþjálfari hjá Íslandi á Englandi er liðið mætti Trínidad og Tóbagó í vináttulandsleik á Loftus Road. Hann virðist vera mjög fínn náungi."

Mike nefnir líka Guðjón Heiðar Sveinsson. „Ég hitti hann þegar ég var í fríi á Tenerife fyrir nokkrum árum. Við áttum gott spjall."

ÍA eða Tranmere Rovers?
Mike reynir að horfa á alla leiki Skagamanna sem hann getur mögulega horft á. „Ég hef horft á marga leiki á Bet365 síðustu árin. Ég reyni að horfa á alla leiki, en stundum er Tranmere að spila á sama tíma."

„Ég horfi á undirbúningsleikina og vetrarmótinn á ÍATV og stundum minnast lýsendurnir á mig í útsendingunni. Ég er örugglega smá frægur á Akranesi," sagði Mike léttur.

Eins og áður kemur fram þá styður Mike lið Tranmere Rovers sem er núna í fallbaráttu í C-deild Englands. „Ég hef verið ársmiðahafi hjá Tranmere í 30 ár eða svo. Ég og sonur minn förum á alla leiki, hvort sem þeir eru á heimavelli eða útivelli."

Ef að ÍA og Tranmere myndu mætast í leik þá yrði erfitt fyrir hann að velja á milli. „Ég verð að segja Tranmere, eða nei, ég myndi halda með jafnteflinu!"

Mike býst við að komandi tímabil verði erfitt fyrir Skagamenn. „Ég held að þetta geti orðið erfitt tímabil. Ég bjóst við að þeir myndu ná í liðsstyrk að utan, en ég sé það ekki gerast núna. Leikmenn sem stóðu sig vel í Evrópukeppni unglingaliða gætu fengið tækifærið."

„Ef þeir halda sér uppi þá verða þeir líklega ánægðir með það, það er að segja ef hægt verður að spila," sagði þessi hressi stuðningsmaður ÍA að lokum.

Sjá einnig:
Viðtal við enskan stuðningsmann ÍA sem kom til Íslands
Athugasemdir
banner
banner