
„Það er fullt jákvætt í okkar frammistöðu og fullt af punktum sem við getum tekið með okkur inn í deildina," sagði Ómar Ingi Guðmundsson, þjálfari HK, eftir 0-1 tap gegn Breiðabliki í Mjólkurbikarnum í kvöld.
Lestu um leikinn: HK 0 - 1 Breiðablik
Þetta var svekkjandi tap fyrir HK í nágrannaslag en leikmenn liðsins geta verið mjög stoltir af sinni frammistöðu í kvöld.
„Ég er stoltur af flestöllu sem við lögðum í leikinn en fyrstu viðbrögð við tapi eru yfirleitt ekki sérstök."
„Ég er mjög stoltur af mínum mönnum og frammistöðu liðsins. Við þurfum að þjappa okkur saman og halda áfram í deildinni," segir Ómar.
HK fékk dauðafæri til að taka forystuna undir lok fyrri hálfleiks. Það hefði verið áhugavert að sjá hvernig leikurinn hefði spilast ef þeir hefðu nýtt það færi.
„Þetta varð einhvern veginn að þremur færum; í slá, þeir blokka skot og svo rétt fram hjá. Það var vissulega mjög svekkjandi en svona var þetta í kvöld."
Stemningin í Kórnum var frábær og andrúmsloftið rafmagnað. Þetta var fyrsti Kópavogsslagur Ómars sem þjálfara.
„Við viljum gera vel á móti Breiðabliki, sama hvort það er hér eða í yngri flokkunum. Það breytist ekkert. Ætli ég hafi ekki þjálfað helminginn af liðinu í dag í yngri flokkunum á móti Breiðabliki. Hugarfarið er alltaf það sama, við viljum vinna þegar við mætum þeim. Við seljum okkur dýrt og það sást í kvöld. Vonandi er þetta eitthvað sem við tökum með okkur. Ég vona að við höfum gert okkar fólk stolt," sagði Ómar.
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir