Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   sun 20. júní 2021 23:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Vonbrigði en samt eiginlega ekki
Ekki hægt að setja út á stigasöfnunina en frammistaðan ekki sannfærandi
Valur er í öðru sæti, með jafnmörg stig og toppliðið.
Valur er í öðru sæti, með jafnmörg stig og toppliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elín Metta er byrjuð að skora.
Elín Metta er byrjuð að skora.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir Pepsi Max-deild kvenna var Valskonum spáð Íslandsmeistaratitlinum af flestum sem fylgjast með deildinni.

Íslandsmeistarakandídatarnir hafa ekki verið sannfærandi en eru samt sem áður í öðru sæti deildarinnar, með jafnmörg stig og topplið Selfoss.

Núna gæti horft hjá bjartari tíma hjá Val sem vann 5-0 sigur á Tindastóli í síðustu umferð. Elín Metta Jensen er einnig byrjuð að skora eftir markaþurrð í fyrstu leikjum tímabilsins. Er takturinn fundinn?

„Margir hafa talað um þær sem ákveðið vonbrigðalið, alla vega framan af í sumar. Langflestir spáðu þeim Íslandsmeistaratitli. Þær eru búnar að tapa og gera jafntefli sem er óvanalegt á þeim slóðum eftir bara sex leiki," sagði Mist Rúnarsdóttir í Heimavellinum.

„Það er fyndið, maður hugsar um þær sem vonbrigði en svo er eiginlega ekki hægt að setja út á það heldur þegar þú ert með stigasöfnun sem gefur þér fyrsta til annað sæti. Þá ertu að gera nóg en þær hafa ekki verið nægilega sannfærandi í leikjunum, það er það eina," sagði Aníta Lísa Svansdóttir.

„Maður er svo vanur að sjá Val skora þrjú mörk í leik. Það hefur verið lítið um það. Það sem ég sá úr þessum Tindastóls leik var ótrúlega sannfærandi og kannski er takturinn kominn. Elín Metta er komin á blað og það telur helling," sagði Sæbjörn Þór Steinke.

„Já, hún var lengi að koma sér í gang. Það er vonandi komið núna," sagði Aníta Lísa.

„Lukkudísirnar hafa verið með þeim. Þær gera jafntefli á móti Þrótti og tapa svo illa á móti Blikum. Þrátt fyrir að vera með fjögur töpuð stig, þá hefur mótið spilast þannig að þær eru í fyrsta til öðru sæti," sagði Mist.

„Þær eiga eftir að spila á móti Selfossi. Þær geta horft á það að komast á toppinn með því að vinna þær," sagði Sæbjörn.

Valur á heimaleik við Þór/KA í Pepsi Max-deildinni annað kvöld.
Heimavöllurinn: Írskir dagar og þriðjungsuppgjör á Maxinu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner