Real gæti gert janúartilboð í Trent - O'Neil verður ekki rekinn - Liverpool vill Eze
banner
   fös 20. september 2024 18:30
Ívan Guðjón Baldursson
Toney og Firmino hetjurnar í uppbótartíma
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA
Al-Ahli 4 - 2 Damac
1-0 Gabri Veiga ('13)
1-1 Ayman Fallatah ('45+9)
2-1 Ivan Toney ('46)
2-2 Farouk Chafai ('66)
3-2 Roberto Firmino ('98)
4-2 Ivan Toney ('106)

Framherjinn öflugi Ivan Toney er búinn að skora sín fyrstu mörk fyrir Al-Ahli frá því að hann var keyptur til sádi-arabíska stórveldisins í lok ágúst.

Toney var í byrjunarliðinu á heimavelli gegn Damac í dag og lagði upp fyrsta mark leiksins á þrettándu mínútu, fyrir spænska miðjumanninn Gabri Veiga sem endurlaunaði Toney svo greiðann í síðari hálfleik. Toney skoraði í upphafi síðari hálfleiks og er kominn með tvö mörk og eina stoðsendingu eftir þrjá leiki í byrjunarliði Al-Ahli.

Gestirnir frá Damac áttu góðan leik og jöfnuðu í tvígang og var staðan 2-2 á 90. mínútu, þegar ellefu mínútum var bætt við.

Edouard Mendy, Merih Demiral, Roger Ibanez, Franck Kessie og Riyad Mahrez voru allir í byrjunarliði Al-Ahli í dag og þá kom Roberto Firmino inn af bekknum á 73. mínútu og átti eftir að skipta sköpum í uppbótartímanum langa.

Hann skoraði á 98. mínútu eftir stoðsendingu frá Ibanez en haldið áfram var með leikinn yfir þær ellefu mínútur sem bætt var við og tókst Toney að skora annað mark á 106. mínútu til að innsigla sigurinn.

Lokatölur urðu því 4-2 fyrir Al-Ahli sem er með sjö stig eftir fjórar umferðir. Damac er með þrjú stig.

Habib Diallo og Georges-Kevin N'Koudou voru í byrjunarliði Damac, sem leikur undir stjórn Cosmin Contra.
Athugasemdir
banner